Innlent

Yrði forvitnilegt að yfirheyra Miðflokksmenn

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Upptaka Báru Halldórsdóttur af samtali þingmannanna á Klausturbar var ólögleg að mati persónuverndar. Lögmaður Báru telur líklegt að þingmennirnir höfði skaðabótamál með niðurstöðuna að vopni.

Í úrskurðinum segir að upptakan brjóti í bága við persónuverndarlög og hefur Báru verið gert að eyða upptökunni fyrir 5. júní.

Hefur hún þegar gert það?

„Nei hún hefur ekki gert það. Hún er erlendis og hún hefur talað um að ef til vill muni hún bara taka það upp og hafa það hátíðlegt," segir Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmaður Báru.

Ragnar Aðalsteinsson og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmenn Báru.Skjáskot/Stöð 2
Lögmenn Báru segja þó jákvætt að henni hafi ekki verið gert að greiða sekt þrátt fyrir að þingmenn Miðflokksins, sem kærðu málið, hafi ítrekað krafist þess.

„Nefndin hefur skilning á því hvers vegna Bára tók upp á því að taka upp samtöl í þessu opinbera rými, samtöl þessara framámanna þjóðfélagsins. Það var vegna þess hvað þeir voru að segja, sem er aðalatriðið," segir Ragnar Aðalsteinsson, annar lögmaður Báru.

Vegna þess að upptakan stóð yfir í fjórar klukkustundir telur Persónuvernd að hún flokkist undir rafræna vöktun, líkt og öryggismyndavélar. Þetta er fordæmalaus túlkun með stakar símaupptökur.

„Vegna þessarar tæknilegu útfærsla sleppur Bára ekki. Vegna þess að af þessu leiðir að þetta telst ekki vera fréttamennska, sem er mjög víðtækt hugtak í persónurétti," segir Ragnar.

Þingmenn Miðflokksins sem kærðu upptökuna til Persónuverndar.Vísir
Með úrskurðinn að vopni geta þingmenn Miðflokksins nú farið með málið lengra.

„Þau hafa frá upphafi talað um að þau hafi áhuga á að fara með þetta í dómsmál, það gæti þá annað hvort verið til þess að fá úrskurðinn ógiltan eða til þess að krefjast miskabóta," segir Auður.

Ragnar telur líklegt miðað við fyrri yfirlýsingar að þingmennirnir höfði skaðabótamál.

„Það verður afar forvitnilegt að reka það mál og yfirheyra sexmenningana um hvað þeir voru að gera þarna þetta kvöld," segir Ragnar.


Tengdar fréttir

Miðflokksmenn geti höfðað skaðabótamál

Báru Halldórsdóttur hefur verið gert að eyða upptökum af samtölum þingmannanna á Klausturbar og ætlar hún að verða við því að sögn lögmanns. Stjórn Persónuverndar komst að þeirri niðurstöðu í gær að upptakan hafi verið ólögmæt. Sérfræðingur í persónurétti segir að Miðflokksmenn geti höfðað skaðabótamál á grundvelli upptökunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×