Innlent

Þristur á leiðinni til Reykjavíkur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fjöldi fólks nýtti sér tækifærin sem gáfust til að skoða þessa fornfrægu stríðsgripi á Reykjavíkurflugvelli í vikunni sem leið.
Fjöldi fólks nýtti sér tækifærin sem gáfust til að skoða þessa fornfrægu stríðsgripi á Reykjavíkurflugvelli í vikunni sem leið. Stöð 2/KMU.

Enn ein flugvélin í þristaleiðangrinum mikla yfir Atlantshafið er nú á leiðinni til Íslands. Það yrði tólfta Douglas Dakota-flugvélin sem millilendir í Reykjavík á aðeins einni viku til að taka þátt í minningarathöfnum í Frakklandi vegna D-dagsins fyrir 75 árum, upphafsdags innrásar Bandamanna í Normandí. 

Flugvélin, sem nú er væntanleg, ber gæluheitið Miss Montana og er af hergerðinni C-47, smíðuð undir stríðslok árið 1945. Vélin var í nótt í Iqaluit við Frobisher-flóa, höfuðstað Baffinslands, en flaug í morgun til Kangerlussuaq á Grænlandi, þar sem hún lenti um hádegisbil. Eftir eldsneytisáfyllingu var haldið í loftið á ný upp úr klukkan eitt og áætlar áhöfnin að lenda í Reykjavík um sexleytið í kvöld.

Íslenska þristinum Páli Sveinssyni var flogið frá Akureyri á fimmtudagskvöld til móts við þristahópinn á Reykjavíkurflugvelli. Stöð 2/KMU.

Þá verða aðeins tveir þristar ókomnir af þeim fjórtán sem gert er ráð fyrir að fljúgi frá Bandaríkjunum til Evrópu til að minnast stríðsatburðanna. Búist er við öðrum þeirra á morgun en flugáætlun hans liggur ekki nánar fyrir, samkvæmt upplýsingum frá flugþjónustunni ACE FBO. 

Íslenski þristurinn Páll Sveinsson er nú á flugstæðinu norðan Loftleiðahótelsins. Hann kom til Reykjavíkur á fimmtudagskvöld eftir að flugvirkjar luku viðgerð á bilun í hreyfli á Akureyrarflugvelli.


Tengdar fréttir

Páll komst loksins á stefnumót í kvöld

Íslenskir þristavinir glöddust innilega þegar Páll Sveinsson lenti á Reykjavíkurflugvelli laust upp úr klukkan sjö í kvöld. Fara þarf áratugi aftur í tímann til að finna dæmi um svo marga þrista samtímis á flugvellinum.

Þristarnir streyma inn til Reykjavíkur

Alls fjórtán flugvélar frá stríðsárunum, svokallaðir þristar, millilenda á Íslandi næstu tvo sólarhringa á leið sinni frá Bandaríkjunum til Evrópu til að minnast innrásarinnar í Normandí.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.