Innlent

Fólk í hverfinu kom líka að innbrotsþjófi fyrir nokkrum dögum

Sighvatur Jónsson skrifar
Íbúi í Grafarholti kom að innbrotsþjófi í íbúð sinni aðfaranótt laugardags og rak hann á brott. Íbúinn segist hafa lært það að læsa alltaf íbúðinni en þjófurinn braust inn aðeins nokkrum mínútum eftir að húsráðandi fór að heiman.

Hjördís Líney býr í fjölbýlishúsi í Grafarholti. Hún skaust út í aðeins 20 mínútur aðfaranótt laugardags. Þegar hún kom til baka var innbrotsþjófur í íbúð hennar.

„Ég fattaði að hún var að tína dót ofan í poka hjá sér, dótið mitt. Þá fer ég í einhvern varnarham og geri mig stóra og næ að yfirbuga hana. Ég hélt að þetta væri vinkona mín, þær koma stundum, en síðan vissi ég ekkert hver þessi manneskja var,“ segir Hjördís Líney.

Ætlaði að stela lyfjum

Hjördís tók eftir lyfjakassanum sínum á gólfinu. Hún segir að innbrotsþjófurinn hafi ætlað að stela lyfseðilsskyldum lyfjum.

Hjördís vill koma þýfi frá innbrotsþjófnum til réttra eigenda. Hún segir hluta af því vera úr bíl af gerðinni Toyota Carina, 96 árgerð.

Hjördís segir fólk í hverfinu hafa lent í svipuðum aðstæðum. Fyrir nokkrum dögum hafi fólk komið að innbrotsþjófi í íbúð sinni með svipuðum hætti og hún gerði aðfaranótt laugardags.

„Ég spurði lögregluna að því hvort þetta væri þekkt og maður þyrfti að vera vakandi yfir þessu og þeir sögðu nei. En síðan heyri ég það eftir á, manna á milli, að þetta er eitthvað sem hefur verið að gerast. Ég veit um eitt atvik sem gerðist á þriðjudaginn þar sem einhver var að reyna að ræna hjá einhverjum, síðan komu þau heim og manneskjan hleypur út,“ segir Hjördís Líney Aðalsteinsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×