Innlent

Gagn­kvæm viður­kenning Kína og Ís­lands á há­skóla­námi mikið réttinda­mál

Heimir Már Pétursson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, er stödd í Kína um þessar mundir.
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, er stödd í Kína um þessar mundir.
Ísland og Kína munu viðurkenna háskólamenntun hvors ríkis fyrir sig eftir að menntamálaráðherrar ríkjanna undirrituðu samning þar að lútandi í Beijing í dag. Þá var einnig undirritaður samningur um menningarsamskipti ríkjanna.

Lilja Alfreðsdóttir skrifaði undir þessa tvo samninga hér í Beijing fyrr í dag ásamt kínverskum kollegum sínum. Haldið var upp á þessi tímamót með móttöku á heimili sendiherra Íslands í Beijing.

„Við vorum í fyrsta lagi að undirrita samning er varðar menntamál um gagnkvæma viðurkenningu á háskólanámi milli beggja landa. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur samningur er gerður og hann skiptir mjög miklu máli fyrir það að auka samskipti og menntun á milli ríkjanna og svo í öðru lagi vorum við að skrifa undir endurnýjaðan menningarsamning á milli ríkjanna,“ segir Lilja.

Kína hefur gert sams konar samninga við um fimmtíu önnur ríki, meðal annars hin Norðurlöndin. En þar til nú hafa til að mynda Kínverjar sem hlotið hafa háskólagráður á Íslandi ekki fengið þær metnar í heimalandinu.

„Þetta er mikið réttindamál fyrir þá nemendur sem hafa verið að mennta sig í báðum ríkjum,“ segir Lilja.

Það hlýtur að vera mikill fengur fyrir Íslendinga að hafa aðgang með sínum prófum hér í þessu rúmlega milljarða landi?

„Við sjáum það og það er auðvitað alltaf vaxandi áhugi á öllu sem er kínverskt. Við sjáum líka að fjöldi kínverskra ferðamanna sem er að koma til Íslands, hann hefur aukist um 400 prósent á átta árum þannig að það eru feikileg tækifæri hér,“ segir Lilja.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×