Innlent

Almenningur fær ekki réttar upplýsingar um innihald matvæla

Birna Dröfn Jónasdóttir skrifar
Ólafur Reykdal, sérfræðingur hjá Matís.
Ólafur Reykdal, sérfræðingur hjá Matís. Fréttablaðið/Anton Brink
Mælingar á innihaldsefnum íslenskra matvæla hafa ekki verið framkvæmdar í áratug. Í nágrannalöndum okkar eru slíkar mælingar framkvæmdar á hverju ári. „Í grannlöndum okkar er verið að uppfæra þessa gagnagrunna alltaf eitthvað á hverju ári. Teknar eru fyrir ákveðnar fæðutegundir árlega og til þess eru veittar ákveðnar fjárveitingar,“ segir Ólafur Reykdal, sérfræðingur hjá Matís.

Ólafur segir nauðsynlegt að mæla innihaldsefni matvæla svo að almenningur fái réttar upplýsingar um það hvað er í matnum sem hann borðar. Slíkar upplýsingar séu mikilvægar öllum en sér í lagi þeim sem hafa sérþarfir í mataræði. „Það eru ýmsar sérþarfir sem fólk hefur út af sjúkdómum til dæmis og þá þarf að vera hægt að átta sig á hvað mismunandi matvæli innihalda af efnum sem þarf annaðhvort að takmarka eða fólk þarf nauðsynlega á að halda í vissu magni,“ segir Ólafur og bætir við að upplýsingarnar séu einnig mikilvægar þegar framkvæmdar séu ýmsar kannanir á matarvenjum Íslendinga.

Gagnagrunnur um innihaldsefni íslenskra matvæla, ÍSGEM, er til en hann hefur ekki verið uppfærður síðan árið 2009. Ólafur segir mikilvægt að uppfæra gagnagrunninn þar sem innihaldsefni matvæla geti breyst af ýmsum ástæðum. „Innihald í unnum matvörum getur breyst við það að uppskrift sé breytt, það geta verið umhverfisáhrif og fóðuráhrif svo eitthvað sé nefnt. Ef fóðrun er breytt þá geta innihaldsefni matvæla breyst. Joð og fitusýrur eru góð dæmi um þetta.“

Aðspurður um hvað hamli því að gagnagrunnurinn sé uppfærður segir Ólafur ástæðuna vera skort á fjármagni. „Það hefur verið sótt um fjármagn í þetta á hverju ári en það eru bara takmarkaðir fjármunir í boði og ekki skilningur á því að þetta þurfi uppfærslu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×