Innlent

Hífa líklega hluta áhafnarinnar upp í þyrlu Gæslunnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Myndin er úr safni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Myndin er úr safni. Vísir/Ernir Eyjólfsson

Þyrla Landhelgisgæslunnar, varðskip og björgunarsveitir voru kallaðar út eftir að neyðarkall barst frá rækjutogaranum Sóleyju Sigurjóns GK200 á tíunda tímanum í kvöld. Eldur var laus í vélarúmi skipsins sem er statt um níutíu sjómílur norður af landinu en átta manns eru um borð. Allir um borð eru heilir á húfi.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kom fram að TF-LIF og varðskipið Týr, sem var statt við Húsavík, hafi þegar í stað verið kölluð út. Neyðarkallið barst klukkan 21:12 í kvöld. Björgunarskipið Sigurvin frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu á Siglufirði með tvo slökkviliðsmenn um borð var einnig kallað út. Togarinn Múlaberg sem var í grendinni var einnig beðinn um að halda á vettvang.

Samkvæmt upplýsingum Gæslunnar frá skipverjunum ræstu þeir slökkvikerfi í vélarrúmi skipsins og virðist sem að allur eldur sé slokknaður. Skipið sé hins vegar vélarvana og aðstoðar þurfi. Skipverjarnir eru allir sagðir komnir í björgunargalla og halda til heilir á húfi í brú skipsins.

Gert er ráð fyrir að þyrla Gæslunnar komi að togaranum um klukkan 23:50. Múlabergið er sagt væntanlegt á staðinn um svipað leyti. Týr kemur líklega ekki á staðinn fyrr en um klukkan fjögur í nótt og Sigurvin um klukkustund síðar.

Í skipaskrá kemur fram að Sóley Sigurjóns er í eigu Nesfisks og er með heimahöfn í Garði. Skuttogarinn er um 737 tonn og rúmlega 38 metrar að lengd.

Uppfært 00:37 Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar eru bæði TF-LIF og Múlabergið komin að Sóleyju. Ástandið um borð sé stöðugt. Unnið er að því að koma taug á milli skipanna tveggja. Hann býst við að hluti áhafnarinnar verði hífð um borð í þyrluna og flutt í land. Sóley verði dregin til hafnar, annað hvort á Akureyri eða Siglufirði.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.