Innlent

Helga Jónsdóttir heiðursvísindamaður Landspítala

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Helga Jónsdóttir er prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í hjúkrunarfræði árið 1995.
Helga Jónsdóttir er prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í hjúkrunarfræði árið 1995. Mynd/Landspítali

Helga Jónsdóttir var í dag útnefnd heiðursvísindamaður Landspítala 2019 á árlegu þingi Landspítalans, Vísindum á vordögum, og fær 400 þúsund króna heiðursfé. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum.

Helga er prófessor í hjúkrunarfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður hjúkrunar langveikra fullorðinna í samtengdri stöðu á Landspítala. Hún lauk doktorsprófi í hjúkrunarfræði frá Háskólanum í Minnesota árið 1995.

Helga hefur einkum fengist við eigindlegar og megindlegar rannsóknir á reynslu, einkennum og líðan fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma, einkum lungna- og taugasjúkdóma og fjölskyldna þeirra, ásamt því að þróa og prófa hjúkrunarþjónustu byggða á samráði fyrir þessa einstaklinga. Rannsóknirnar eru unnar í samvinnu fjölda vísindamanna innanlands og erlendis og hafa birst ríflega 70 ritrýndar tímaritsgreinar byggðar á þessum og fleiri rannsóknum.

Þrír hjúkrunarfræðingar hafa lokið doktorsprófi undir leiðsögn Helgu og nokkrir í doktorsnámi. Hjúkrunarfræðingar sem lokið hafa meistaraprófi undir hennar leiðsögn eru á þriðja tug.

Rannsóknarverkefni sem Helga er með í vinnslu:

  • Inntak og árangur samráðs til eflingar heilbrigðis einstaklinga með LLT og fjölskyldum þeirra. Styrkt af Rannsóknarsjóði H.Í., Vísindasjóði LSH og B-hluta Vísindasjóðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
  • Klínískt mat og meðferð einstaklinga með gaumstol og fjölskyldur þeirra. Samstarfsverkefni H.Í., LSH og sjúkrahúsa í Litháen og Danmörku.
  • Þróun og mat á ActivABLES tækjabúnaðinum fyrir einstaklinga með heilablóðfall. Styrkt af NordForsk.
  • Ákvörðunartaka um lífslokameðferð taugasjúklinga á sjúkradeild. Styrkt af Vísindasjóði LSH og Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.