Innlent

Hluti erlendu starfsmanna WOW air farinn aftur heim

Sighvatur Jónsson skrifar
Stór hluti þeirra sem hafa misst vinnuna eftir gjaldþrot WOW air eru erlendir ríkisborgarar, segir formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis. Sumir erlendu starfsmenn WOW air hafi snúið aftur til heimalandsins.

Kyrrsettar flugvélar WOW air og Icelandair blasa við út um gluggann á skrifstofu formanns Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

Guðbjörg Kristmundsdóttir tók við starfinu fyrir nokkrum vikum og verkefnin hafa verið ærin eftir gjaldþrot WOW air.

„Það hafa verið einhverjar uppsagnir en það er ekkert búið að setjast í þessu og það verður ekkert fyrr en í haust sem við sjáum raunverulega stöðu,“ segir Guðbjörg.

Óvissa um sumarstörf

Guðbjörg segir að fólk leiti til félagsins vegna gjaldþrots WOW air og annarra uppsagna í kjölfarið.

„Það er bæði samdráttur á vinnutímum og verið að fækka starfsmönnum. Svo höfum við heyrt af því að fyrirtæki haldi að sér höndum með sumarráðningar.

Guðbjörg segir að fyrirtæki sem hafi verið búin að ráða sumarstarfsmenn séu að draga þær ráðningar til baka. Þá hafi hún heyrt að fyrirtæki hafi hætt við að ráða inn auka starfsfólk fyrir sumarið.

„Ég óttast að það verði svolítið stór hópur sem verður án vinnu þá. Háskólanemar og framhaldsskólarnemar.“

Þá segir Guðbjörg dæmi um að erlendir ríkisborgarar sem störfuðu fyrir WOW air séu farnir til síns heima. Þar á meðal séu starfsmenn sem félagið sé að rukka laun fyrir eftir gjaldþrot WOW air. Flestir séu þeir frá Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×