Lífið

Safna upplýsingum um Eurovision-hefðir Íslendinga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hljómsveitin Hatari flytur framlag Íslands í Eurovision í ár.
Hljómsveitin Hatari flytur framlag Íslands í Eurovision í ár. Mynd/Rúv
Þjóðminjasafn Íslands leitar eftir aðstoð almennings við að safna upplýsingum um Eurovision-hefðir Íslendinga. Gefinn hefur verið út spurningalisti sem safnið hvetur landsmenn eindregið til að svara en spurningarnar lúta m.a. að sjónvarpsútsendingunni sjálfri, Eurovision-partíum og skreytingum.

„Óhætt er að segja að í tengslum við keppnina hafi orðið til siðir og hátíðahöld sem skilgreina má sem nýlegan sið. Söngvakeppnin hefur sameinað þjóðina fyrir framan sjónvarpstækin ár eftir ár og mikil stemming myndast í kringum hana. Hins vegar hefur ekki verið mikið rannsakað hér á landi hvernig menn gera sér glaðan dag í tilefni af keppninni,“ segir í tilkynningu um upplýsingasöfnunina á vef Þjóðminjasafnsins.

Fyrst og fremst leitar safnið eftir frásögnum fólks af eigin reynslu. Þá sé spurningaskráin jafnframt liður í þeirri starfsemi Þjóðminjasafnsins að safna upplýsingum um samtímann.

Á meðal þess sem Þjóðminjasafnið fýsir að vita um Eurovision-hefðir landsmanna lýtur að áhorfi fyrir keppnina, hvort Íslendingar kynni sér hana vel áður en hún fer fram, hvort haldin séu sérstök Eurovision-partí á heimilinu, hvort farið sé í leiki og hvernig matur sé á boðstólnum á aðalkvöldinu.

Hér má nálgast Eurovision-spurningalistann á pdf-formi og hér má finna rafræna spurningaskrá á sarpur.is. Og hér að neðan má sjá íslenska framlag keppninnar í ár, Hatrið mun sigra í flutningi Hatara. Sveitin stígur á svið í Tel Aviv á fyrra undankvöldi Eurovision eftir slétta viku, þann 14. maí.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×