Innlent

Hatari nýtti tímann og heimsótti Betlehem

Ari Brynjólfsson skrifar
Meðlimir Hatara hafa í nógu að snúast í Ísrael en æft verður í dag.
Meðlimir Hatara hafa í nógu að snúast í Ísrael en æft verður í dag.
Fram undan er langur og strangur dagur fyrir meðlimi hljómsveitarinnar Hatara. Æft verður stíft í Expo-höllinni í Tel Avív í Ísrael. Er þetta önnur æfingin, en sú fyrsta fór fram á sunnudaginn. Samkvæmt upplýsingum innan úr herbúðum Hatara verður atriðið útfært nánar og verður nálægt því sem sjónvarpsáhorfendur fá að sjá þegar hljómsveitin keppir fyrir Íslands hönd í fyrri undanúrslitariðlinum á fimmtudaginn í næstu viku.

Í gær var frjáls dagur og fékk hljómsveitin, ásamt öllu sínu fríða föruneyti, að slaka á og fara í skoðunarferðir. „Hatari fór í fróðlega ferð til Betlehem,“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson, annar söngvara Hatara. „Hópurinn vildi nýta tímann til að kynnast krókum og kimum samfélagsins, ræða við Ísraelsmenn og Palestínumenn, til að átta sig betur á þversagnakenndum raunveruleika landsins og komast nær sannleikanum.“

Eftir æfingar á morgun mun Hatari mæta á blaðamannafund. Blaðamönnum hefur fjölgað töluvert í Tel Avív síðustu daga og má búast við miklu fjölmenni á morgun. Meðlimir Hatara hafa vakið mikla athygli fyrir að vilja nota dagskrárvaldið til að ræða málefni Ísraels og Palestínumanna. Eftir að það barst í tal á síðasta blaðamannafundi var spyrlinum skipað af yfirboðurum sínum að ljúka fundinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×