Innlent

Lést úr listeríusýkingu eftir að hafa borðað lax um jólin

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Laxinn var innkallaður og framleiðslu á honum hætt eftir að konan greindist með listeríubakteríuna.
Laxinn var innkallaður og framleiðslu á honum hætt eftir að konan greindist með listeríubakteríuna. Vísir/Getty
Kona á fimmtugsaldri, sem greindist með listeríusýkingu hér á landi í janúar eftir að hafa borðað reyktan og grafinn lax um síðustu jól, lést af völdum sýkingarinnar hálfum mánuði eftir greiningu. Þetta kemur fram í Farsóttafréttum Landlæknisembættisins.

Þar kemur fram að konan hafi verið með undirliggjandi ónæmisbælingu. Þá hafi framleiðslu á laxinum sem hún innbyrti um jólin verið hætt og öll matvæli innkölluð.

Reyktar afurðir frá framleiðanda höfðu verið fluttar út til Frakklands en dreifingaraðilum þar var gert viðvart. Ekki hafi borist neinar tilkynningar um sýkingar af völdum bakteríunnar vegna neyslu á íslenskum vörum innan Evrópusambandsins (ESB) eða Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Árið 2017 greindust 2.502 tilfelli af listeríusýkingum innan ESB/EES með 14% dánartíðni. Það ár greindust sjö tilfelli af sjúkdómnum á Íslandi.

Fjórir af þessum sjúklingum létust, þrír af þeim voru eldri einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma en einn var nýfætt barn. Sýkingarnar voru taldar af innlendum toga í sex af þessum tilfellum. Svo virðist sem listeríusýkingar hafi verið að færast í vöxt hér á landi undanfarna tvo áratugi, að því er segir í Farsóttafréttum Landlæknis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×