Innlent

Braut gegn stúlku með „afar grófri“ myndsendingu og orðbragði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Vísir/Hanna
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn ungri stúlku. Var honum einnig gert að greiða henni 200 þúsund krónur í miskabætur.

Maðurinn var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa árið 2017 brotið gegn blygðunarsemi stúlkunnar. Hann hafi viðhaft kynferðislegt og klámfengið tal við hana í farsímaskilaboðum og jafnframt sent henni ljósmynd af fólki í kynferðislegum athöfnum.

Var þess krafist að maðurinn yrði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá krafði stúlkan manninn einnig um eina milljón króna í miskabætur.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi neitað sök við þingfestingu málsins á þeim forsendum að hann hefði ekki viðhaft kynferðislegt og klámfengið tal við stúlkuna. Hann endurskoðaði þessa afstöðu sína og játaði brot sín skýlaust við þinghald í gær. Með játningunni og öðrum gögnum málsins taldist því sannað að maðurinn væri sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök.

Miskabætur til stúlkunnar þóttu hæfilegar 200 þúsund krónur. Litið var til þess að háttsemi mannsins var til þess fallin að valda stúlkunni miska en um „afar grófa myndsendingu og orðbragð“ var að ræða, líkt og segir í dómi. Einnig var horft til þess að ekki liggja fyrir sérfræðileg gögn um afleiðingar brotsins fyrir stúlkuna.

Var maðurinn dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Einnig var honum gert að greiða stúlkunni 200 þúsund krónur í miskabætur líkt og áður segir, auk málskostnað upp á rúmar 500 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×