Innlent

Margt í starfsháttum starfsmannaleigu kalli á lögreglurannsókn

Sighvatur Jónsson skrifar
visir/sigurjón
Lögmaður segir margt við starfshætti starfsmannaleigunnar Menn í vinnu kalla á lögreglurannsókn. Meðal annars þurfi að skoða persónulega ábyrgð stjórnenda leigunnar vegna vangoldinna launa. Framkvæmdastjóri Eflingar varar við nýstofnaðri starfsmannaleigu sem hann segir vera dæmi um sígilt kennitöluflakk.

Forsvarsmaður starfsmannaleigunnar Menn í vinnu, Halla Rut Bjarnadóttir, hefur ekki viljað tjá sig um málið við fréttastofu. Hún sagði í viðtali við RÚV í dag að starfsmannaleigan væri að fara í þrot vegna lyga. Fyrirtækið eigi fyrir útistandandi skuldum.

Í umfjöllun Vísis hefur verið bent á að skráður eigandi nýju starfsmannaleigunnar Seiglu heitir það sama og sonur Höllu Rutar og er auk þess á sama aldri og hann.

Úr stofnskrá starfsmannaleigunnar Seigla ehf.Vísir/Tótla
Framkvæmdastjóri Eflingar, Viðar Þorsteinsson, telur það nokkuð ljóst að þarna séu nátengdir aðilar á ferðinni. „Þetta virðist vera sígilt kennitöluflakk.“

Viðar segist þó ekki vita hvort sömu starfsmenn eru skráðir á leigunum tveimur. Hann minnir á að fyrirtæki sem leigi starfsmenn af slíkum leigum beri líka ábyrgð varðandi kjör þeirra.

Ragnar Aðalsteinsson lögmaður skoðar réttindi starfsmanna hjá Mönnum í vinnu. Hann segir að beðið sé viðbragða við kröfubréfum sem hafi verið send út. Ragnar segir margt varðandi vinnubrögð starfsmannaleigunnar gefa tilefni til lögreglurannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×