Innlent

Tveggja stafa tölur í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hitaspákort Veðurstofunnar fyrir klukkan 15 á morgun.
Hitaspákort Veðurstofunnar fyrir klukkan 15 á morgun.
Það má búast við allt að tíu stiga hita á nokkrum stöðum á landinu á morgun ef marka má spákort Veðurstofunnar. Í dag verður hins vegar eilítið kaldara en bjart um nánast allt land.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að víðáttumikil lægð sé nú stödd suður af Hvarfi en hæð er norðaustur af landinu. Staðan er svipuð og hún var í gær og verður því veður einnig með svipuðu móti.

Það má búast við heiðskíru veðri víða norðanlands en skýjuðu með köflum annars staðar og lítilsháttar vætu um suðaustanvert landið. Hiti í dag verður á bilinu þrjú til níu stig en norðanlands má víða búast við vægu næturfrosti.

Á morgun er því svo spáð að hæðin hreyfist til austurs og verður vindur suðaustlægari. Víða verða átta til þrettán metrar á sekúndu og dálítil rigning en hægari vindur og áfram þurrt norðan til. Þá hlýnar einnig þar sem hiti verður á bilinu sex til ellefu stig.

Veðurhorfur á landinu:

Austlæg átt 3-8 m/s, en 10-15 syðst á landinu. Léttskýjað norðantil á landinu en skýjað með köflum annars staðar, og smáskúrir um suðaustanvert landið. Suðaustan 8-15 annað kvöld og dálítil rigning, en hægari vindur og áfram þurrt norðanlands. Hiti 3 til 9 stig, en kaldara að næturlagi. Hlýnar heldur á morgun.

Á fimmtudag:

Suðaustan 8-15 m/s, hvassast með suðurströndinni, og rigning með köflum, en heldur hægari og léttskýjað norðanlands. Hiti 5 til 10 stig.

Á föstudag:

Suðaustan 13-20 m/s og dálítil rigning eða súld. Heldur hægari vindur og þurrt á Norður- og Austurlandi. Hiti 6 til 11 stig.

Á laugardag:

Sunnan og suðaustan 13-20 m/s og talsverð rigning, en úrkomulíltið um norðanvert landið. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×