Innlent

Andlát ungrar konu eftir afskipti lögreglu til rannsóknar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Héraðssaksóknari rannsakar nú tilurð þess að kona á þrítugsaldri lést í kjölfar afskipta lögreglu af henni fyrr í vikunni. Konan hafði verið í samkvæmi þar sem mikið var um eiturlyf. Foreldrar hennar eru ósáttir við meðferð lögreglu á dóttur þeirra.

Konan, sem var fædd árið 1994, lést aðfaranótt þriðjudags. Héraðssaksóknari rannsakar nú tilurð þess að hún lést í kjölfar afskipta lögreglu af henni. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari. Hann segir að rannsókn málsins sé á frumstigi og vildi ekki tjá sig um það að öðru leiti.

Konan hafði verið í samkvæmi þessa nótt þar sem mikið var um eiturlyf, meðal annars kókaín. Lögregla var kölluð á vettvang þar sem konan var komin í mikið ójafnvægi. Eftir að höfð voru afskipti af henni fór hún hjartastopp og hófust endurlífgunartilraunir. Konan var flutt á Landspítalann þar sem hún lést á þriðjudagsmorgun.

Samkvæmt 35. gr. lögreglulaga rannsakar héraðssaksóknari kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans. Hið sama á við ef eftirlitsnefnd lögreglu telur þörf á að taka til rannsóknar atvik þegar maður lætur lífið í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot.

Í samtali við fréttastofu segir móðir konunnar að foreldrarnir séu afar ósáttir við vinnubrögð lögreglu og meðferð á dóttur þeirra. Lögregluþjónar hafi handjárnað hana og bundið á fótum en konan hafi verið í geðrofi vegna neyslu. Þá eigi að sprauta fólk niður, ekki binda. Þá segir móðir stúlkunnar að grunur leiki á að hún hafi tekið kókaín umrætt kvöld.

Í svari frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurn fréttastofu segir að því miður sé ekki hægt að veita neinar upplýsingar um málið sem hefur verið vísað til héraðssaksóknara.

„Koma má því á framfæri að hugur lögreglunnar er hjá aðstandendum konunnar og vill hún koma á framfæri innilegum samúðarkveðjum til þeirra á þessari erfiðu stundu,“ segir í yfirlýsingu lögreglunnar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.