Innlent

Vopnfirðingar syrgja Ólaf í Selárlaug

Birgir Olgeirsson skrifar
Ólafur Björgvin Valgeirsson við Selárlaug.
Ólafur Björgvin Valgeirsson við Selárlaug. Austurfrétt/Gunnar
Vopnfirðingar syrgja nú Ólaf Björgvin Valgeirsson, umsjónarmann sundlaugarinnar í Selárdal á Norðausturlandi. Ólafur féll frá langt fyrir aldur fram laugardaginn 6. apríl en hann var fæddur árið 1955. Hann lætur eftir sig eiginkonu, þrjú börn og barnabörn.

Selárlaug hefur löngum þótt einn af gimsteinum Vopnafjarðar og enda um að ræða ekta sveitasundlaug sem býður upp á einstakt útsýni yfir náttúrufegurðina í Selárdal.

Ólafur stóð vaktina í Selárlaug í þrjá áratugi og því vafalaust margir sem eiga minningar af honum eftir að hafa skellt sér í laugina.

Sundlaugin í Selárdal.Stöð 2/Friðrik Þór
Vopnafjarðarhreppur ákvað að laugin yrði lokuð fram yfir útför Ólafs sem fer fram í Vopnafjarðarkirkju þriðjudaginn 16. apríl næstkomandi.

„Hann var mjög stór partur af þessu samfélagi og alltaf mikið áfall á Vopnafirði þegar fólk fellur frá fyrir aldur fram,“ segir Þór Steinarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps.

„Þetta er mjög náið samfélag og allir halda vel utan um alla,“ segir Þór.

Ólafur var atkvæðamikill í samfélaginu og sinnti til að mynda mikið af trúnaðarstörfum. „Hann var litríkur karakter og verður sárt saknað,“ segir Þór. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×