Innlent

Veðrið: Endur­tekið efni frá í gær

Atli Ísleifsson skrifar
Á höfuðborgarsvæðinu er spáð vaxandi suðaustanátt með þrettán til átján metrum á sekúndu upp úr hádegi og átján til 23 metrum á sekúndu undir kvöld.
Á höfuðborgarsvæðinu er spáð vaxandi suðaustanátt með þrettán til átján metrum á sekúndu upp úr hádegi og átján til 23 metrum á sekúndu undir kvöld. vísir/vilhelm
Gul veðurviðvörun hefur verið gefin út á Vesturlandi, Suðvesturlandi, Suðurlandi og Suðausturlandi auk miðhálendisins.

Á vef Veðurstofunnar segir að veðrið í dag sé eiginlega endurtekið efni frá í gær, vaxandi suðaustanátt, stormur og jafnvel rok seinni partinn en heldur hægari vindur norðan- og austantil á landinu.

„Það verður líklega ívið hvassara en í gær sunnan- og vestanlands og því eru gular viðvaranir í gildi. Bjartviðri norðan heiða, annars súld eða rigning. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast á Norðurlandi.

Víðáttumikil hæð situr nú sem fastast yfir Noregi og hún stýrir lægðum í átt til Íslands næstu daga. Veðurspáin er því einföld: suðaustanátt, hvasst á köflum, vætusamt og milt en lengst af þurrt á norðaustanverðu landinu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spáð er vaxandi suðaustanátt með átján til 25 metrum á sekúndu en heldur hægari á norðan- og austanverðu landinu í dag.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð vaxandi suðaustanátt með þrettán til átján metrum á sekúndu upp úr hádegi og átján til 23 metrum á sekúndu undir kvöld. Suðaustan átt með tíu til fimmtán metrum á sekúndu á morgun. Rigning á köflum og hiti allt að ellefu stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×