Innlent

Komin með skóla­vist en eftir situr krafa móður um ráð­gjöf sem hentar

IA skrifar
Hrönn fékk mikil viðbrögð við bréfi sínu til ráðherra í Fréttablaðinu.
Hrönn fékk mikil viðbrögð við bréfi sínu til ráðherra í Fréttablaðinu.
Ellefu ára gömul einhverf stúlka er nú komin aftur með skólavist eftir að foreldrar hennar fengu tilkynningu í síðustu viku um að grunnskólinn sem hún gekk í treysti sér ekki lengur til að tryggja öryggi hennar eða starfsmanna skólans. Stúlkan var nýlega greind einhverf. Móðir hennar, Hrönn Sveinsdóttir, skrifaði opið bréf sem birtist í Fréttablaðinu á föstudag. Þar krafðist hún þess að brugðist yrði við og dóttir hennar fengi skólavist og ráðgjöf sem hentaði henni.

Hrönn kveðst hafa fengið mikil viðbrögð við bréfinu og að dóttir hennar sé nú komin með tímabundna skólavist. Eftir sitji samt sem áður krafan um ráðgjöf við einhverfu sem henti dóttur hennar.

„Hún er búin að fá tímabundið úrræði í Hamraskóla. Ég fékk að vita það seint á föstudag að það væri búið að redda því og það kemst í gagnið eftir 6. maí. Ég fer á fund eftir páska til að ræða það, en eftir stendur krafa mín um að við fáum aðgang að einhverfuráðgjafa sem er með okkur í meðferð, bæði okkur foreldrana og hana. Að hjálpa til við heimilið og lífið,“ segir Hrönn.

Hún segir að hún vilji að bæði sé slíkur aðili með þeim heima og með stúlkunni í skólanum. Hún bendir á að hér starfi sjálfstætt starfandi ráðgjafar sem sérhæfi sig í einhverfu eins og dóttir hennar er greind með og að henni finnist eðlilegt að ríkið taki þátt í þeim kostnaði sem fylgir að fá aðstoð þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×