Innlent

Ógnandi umræða um þriðja orkupakkann

Ari Brynjólfsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpi um þriðja orkupakkann fyrir stuttu. Hann sjálfur er sakaður í netheimum um að skara eld að eigin köku vegna málsins.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpi um þriðja orkupakkann fyrir stuttu. Hann sjálfur er sakaður í netheimum um að skara eld að eigin köku vegna málsins. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Umræðan um þriðja orkupakkann er orðin ofstopafull og meiðandi að mati einstaklings sem hefur verið sakaður um landráð og mútuþægni vegna stuðnings síns við málið.

Þórlindur Kjartansson pistlahöfundur hefur tvisvar tjáð sig um málið, í pistli í Fréttablaðinu á föstudaginn og í Silfrinu á RÚV á sunnudaginn. Hann hefur kynnt sér málið og segir marga þeirra sem fara fremstir í flokki í andstöðu við þriðja orkupakkann gera það vegna andstöðu við veru Íslands í EES ásamt annarri alþjóðlegri samvinnu.

„Það er mjög eðlilegt að fólk sem heyrir þessar miklu kenningar hafi raunverulega áhyggjur, vilji fá svör og kynna sér hlutina. Vandinn er að stór hluti af þessum áhyggjum stafar af rangfærslum og ýkjum sem eru ekki settar fram í heiðarlegum tilgangi, heldur einmitt til að sá efasemdarfræjum og tortryggni. Það sem þetta leiðir til er að fólk verður smám saman reiðara og sumir mjög ofstopafullir,“ segir Þórlindur. „Þeir sem hafa reynt að taka þátt í þessari umræðu verða fyrir barðinu á afskaplega harkalegum ummælum. Sumt af því er hreinlega ógnandi.“

Þórlindur Kjartansson “Þeir sem hafa reynt að taka þátt í þessari umræðu verða fyrir barðinu á afskaplega harkalegum ummælum. Sumt af því er hreinlega ógnandi.”

Þórlindi finnst áhugavert að sjá orðfærið sem notað er í netheimum, þá sérstaklega eftir að samtökin Orkan okkar tóku til starfa fyrir stuttu. „Manni finnst það svolítið sorglegt sem er skrifað til dæmis á Facebook-síðu Orkunnar okkar, þar er talað um landráð sem er lögbrot sem er hægt að refsa fyrir með lífstíðarfangelsi og víða með lífláti. Það er ekkert smámál að segja mann fremja landráð, þó ég viti að þessu er hent fram í skilningsleysi,“ segir Þórlindur.

„Það er algjörlega kinnroðalaust dylgjað um að það séu allir á einhvers konar launum eða hafi látið kaupa afstöðu sína, sem er algjörlega ömurleg ásökun, ósönn og kolröng. Svo eru notuð svona ofstopafull orð eins og „rit- og talhóra“ og fleira sem er óþægilegt að sjá,“ segir Þórlindur. „Það er líka áhugavert að mörgum úr þessum hópi sveið sérstaklega að ég talaði um að það væri ofstopi í umræðunni.“

Birgir Örn Steingrímsson, einn talsmanna Orkunnar okkar, segir málið heitt á báða bóga. „Þetta er mjög mikilvægt mál fyrir þá sem vilja fara inn í ESB, svo er þeim sem umhugað er um fullveldi ekki alveg sama. Þetta er tilfinningalegt átakamál eins og IceSave-málið, þá koma svona yfirlýsingar,“ segir Birgir Örn. Hann segir gífuryrðin ekki einskorðuð við andstæðinga þriðja orkupakkans. „Það er búið að kalla okkur nasista, þjóðernissinna og einangrunarsinna. Ef einhver er kallaður nasisti þá kemur hann kannski á móti með mynd af snöru og kallar hinn landráðamann.“

Þórlindur kallar eftir ábyrgð aðstandenda Orkunnar okkar. „Þarna er viljandi verið að dreifa ranghugmyndum og leyfa þeim að grassera. Þetta er þróun sem hefur mjög víða leitt til mjög vondra hluta og gerir eðlilega og málefnalega umræðu algjörlega ómögulega,“ segir Þórlindur. „Ég get ekki ímyndað mér annað en að margt gott fólk hugsi sig um áður en það tekur þátt í baráttu sem er undirlögð af svona ósóma, ógnunum og hótunum.“

Birgir Örn segir forsvarsmenn Orkunnar okkar ekki standa fyrir gífuryrðum og telur hann að um 90 prósent umræðunnar séu á málefnalegum nótum. „Það eru hund­rað þúsund manns sem kíkja inn á síðuna okkar, þetta er svo gífurlegur fjöldi, það þyrftu að vera tugir manna að fara yfir athugasemdirnar. Við höfum verið að henda út annað slagið.“


Tengdar fréttir

Vilja þriðja orkupakkann í þjóðaratkvæði

Þriðji orkupakkinn á að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu að mati talsmanns hópsins Orkan okkar. Hópurinn er farinn að birta auglýsingar gegn orkupakkanum og safnar undirskriftum til að færa þingi og forseta.

Orkupakkinn í samræmi við stjórnarskrá

Þetta segja þeir Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, lögfræðingur, í bréfi sem þeir sendu Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, í dag.

Öll einkenni þjóðernispopúlisma til staðar í umræðu um þriðja orkupakkann

Það er auðvelt að grípa til þjóðernispopúlískra aðferða í umræðunni um þriðja orkupakkann vegna þess hvernig málið er vaxið en það er tiltölulega flókið og erlendir aðilar eiga hlut að máli. Þetta er mat Eiríks Bergmanns, prófessor í stjórnmálafræði, sem hefur í sínum rannsóknum á síðustu árum sérhæft sig í popúlisma.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.