Innlent

Bakland iðnaðarmanna orðið óþreyjufullt

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Frá fundinum í gær.
Frá fundinum í gær. Fréttablaðið/Ernir

„Við fórum yfir það með SA að menn væru frekar óþreyjufullir í baklandinu hjá okkur. Við lýstum því yfir að við myndum gefa okkur vikuna eftir páska til að reyna að fá eitthvað fast á borðið,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður samflots iðnaðarmanna.

Samtök atvinnulífsins (SA) og samflot iðnaðarmanna héldu kjaraviðræðum sínum áfram hjá ríkissáttasemjara í gær. Kristján segir að í rauninni hafi fundurinn verið frekar tíðindalítill.

„Við fórum aðeins yfir áhersluatriði sem SA höfðu verið að skoða. Við væntum þess að fá einhverja afstöðu til nokkurra mála sem við fengum svo sem að hluta til þó það hafi ekkert verið fast í hendi,“ segir Kristján.

Fari málin ekki að skýrast í næstu viku þurfi iðnaðarmenn að undirbúa næstu skref. „Við þurfum að komast mjög langt með málin í næstu viku ef við ætlum að halda okkur í þessum gír. Annars eru það bara atkvæðagreiðslur um einhverjar átakalínur.“

Aðilar munu hittast næst á þriðjudaginn en Kristján segist ekki eiga von á því að mikið gerist um páskana. „SA er að kalla eftir einhverjum upplýsingum frá sínu baklandi og við erum að vinna í okkar málum. Vikan eftir páska verður töluverð vinnuvika vona ég.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.