Innlent

Stormur væntanlegur og gul viðvörun á Snæfellsnesi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svona leit vindaspáin síðdegis á landinu út í morgun.
Svona leit vindaspáin síðdegis á landinu út í morgun. Skjáskot/Veðurstofa íslands
„Frekar máttlaus“ skil nálgast nú úr vestri og er útlit fyrir milda og allhvassa sunnanátt um landið vestanvert, en þó gæti slegið í storm á norðanverðu Snæfellsnesi, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þá er gul viðvörun Veðurstofu í gildi á Breiðafirði fram til 18 í kvöld.

„Þar [á Snæfellsnesi] vill vindurinn oft magnast upp í sunnanáttinni og gæti orðið hviðótt þar fram eftir degi. Það er ekki mikil úrkoma sem fylgir þessum skilum og í raun þurrt að kalla fram á kvöld þegar byrjar að rigna eða slydda allra vestast. Fyrir norðan og austan stefnir í rólegra og tíðindaminna veður, hægari vind og bjartviðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Á morgun dregur svo vel úr vindinum en áfram verður einhver væta um vestanvert landið og hiti víða yfir frostmarki. Um helgina er útlit fyrir frekar hæga austlæga átt og að mestu þurrt veður en strekkingsvind með suðurströndinni og líkur á lítilsháttar vætu þar.

Veðurhorfur á landinu

Gengur í sunnan 10-20 m/s með morgninum, hvassast á Snæfellsnesi. Skýjað og úrkomulítið S- og V-til, en rigning eða slydda vestast undir kvöld. Hægari og bjartviðri NA- og A-lands. Hlýnandi veður, hiti 1 til 6 stig seinni partinn, en vægt frost NA-til.

Breytileg átt 3-8 á morgun og lítilsháttar væta V-lands, en áfram bjart N- og A-til. Hiti breytist lítið.

 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Sunnan 3-10 m/s og dálítil rigning eða slydda af og til V-lands, en bjartviðri N- og A-til. Hiti 0 til 5 stig. 

Á föstudag:

Hæg norðaustlæg átt og léttskýjað, en skýjað með köflum um landið norðaustanvert. Vægt frost NA-til, en hiti upp í 5 stig með S- og V-ströndinni. 

Á laugardag, sunnudag og mánudag:

Austlæg átt og lítilsháttar væta með S-ströndinni, skýjað A-til, en annars víða léttskýjað. Hiti breytist lítið. 

Á þriðjudag:

Útlit fyrir hæga breytilega átt á landinu og þurrt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×