Innlent

Moody´s: Erfitt að fylla fullkomlega í skarð WOW air

Birgir Olgeirsson skrifar
Telur Moody´s að íslenska ríkið sé betur í stakk búið til að takast á við efnahagslegt áfall en það var í efnahagshruninu árið 2008
Telur Moody´s að íslenska ríkið sé betur í stakk búið til að takast á við efnahagslegt áfall en það var í efnahagshruninu árið 2008 FBL/Ernir
Matsfyrirtækið Moody’s birti í dag mat á mögulegum áhrifum af brotthvarfi WOW á íslenskt efnahagslíf. Að mati fyrirtækisins geta áhrifin verið neikvæð til skamms tíma og dregið úr hagvexti á yfirstandandi ári. Fyrirtækið telur líklegt að áhrif til lengri tíma verði takmörkuð þar sem önnur flugfélög muni að líkindum koma inn og fylla skarð WOW.

Moody´s telur að fall WOW air geti valdið miklum samdrætti í útflutningi, fækkun ferðamanna og auknu atvinnuleysi sem mun hafa áhrif á einkaneyslu. Veiking krónunnar eykur einnig hættu á aukinni verðbólgu en krónan hefur veikst um 12 prósent gagnvart Bandaríkjadollara frá september síðastliðnum þegar fregnir af fjárhagserfiðleikum WOW air voru orðnar ansi háværar. Moody´s býst við því að þrýstingur á krónuna verði áframhaldandi vegna fækkunar ferðamanna.

Moody´s tekur fram að WOW air hefði verið búið að draga talsvert úr umsvifum sínum áður en það varð gjaldþrota og því var samdráttur fyrirséður.

Býst Moody´s við því að 27 flugfélög sem verða með áætlunarflug til Íslands muni fylla í skarðið sem WOW air skilur eftir sig. Það gæti þó orðið stórt skarð að fylla að mati Moody´s vegna þess hve stórt hlutfall ferðamanna WOW air flutti til landsins og hversu mikið það einblíndi á bandarískan markað.

Telur Moody´s að íslenska ríkið sé betur í stakk búið til að takast á við efnahagslegt áfall en það var í efnahagshruninu árið 2008 og því sé hægt að koma í veg fyrir neikvæð áhrif til lengri tíma litið vegna falls WOW air.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×