Innlent

Segir vegið að sjálfstæði Seðlabankans

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorsteinn Víglundsson hefur miklar áhyggjur af stöðu Seðlabanka Íslands í ljósi nýrra samninga.
Þorsteinn Víglundsson hefur miklar áhyggjur af stöðu Seðlabanka Íslands í ljósi nýrra samninga. Vísir/Vilhelm
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur miklar áhyggjur af sjálfstæði Seðlabanka Íslands. Honum líst ekkert á að krafa um lækkun stýrivaxta sé hluti af nýundirrituðum kjarasamningum.

Þorsteinn fagnar þó kjarasamningunum almennt en er þó áhyggjufullur um sjálfstæði Seðlabankans. Samkomulagið var kynnt á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum seint í gærkvöldi þar sem verkalýðsfélög, atvinnurekendur og stjórnvöld fögnuðu niðurstöðunni.

„Það er mikið fagnaðarefni að kjarasamningar hafi náðst á stærstum hluta almenna vinnumarkaðarins. Samningarnir fela í sér umtalsverðar hækkanir eins og við var að búast. Það á eftir að koma í ljóst hvort þeir muni verða stefnumótandi fyrir aðra hópa en hætt er við því að millitekjuhópar á borð við iðnaðarmenn og háskólamenntaða ríkisstarfsmenn muni gera aðrar kröfur,“ segir Þorsteinn í færslu á Facebook.

Fram hefur komið að ein af forsendum samningsins sé sú að Seðlabanki Íslands lækki stýrivexti. Þeir eru í dag 4,5%. Þorsteinn hefur áhyggjur af því að tengja kjarasamninga við ákvarðanir í bankanum. Það þyki honum verst við samningana að vaxtalækkun sé gerð að forsenduskilyrði.

„Sjálfstæði Seðlabanka skiptir mjög miklu máli þegar kemur að trúverðugleika peningastefnu og hvað sem okkur finnst um peningastefnuna sem slíka þurfa allir ábyrgir aðilar, stjórnmálamenn sem og aðilar vinnumarkaðarins, að standa vörð um það sjálfstæði. Það er ekki gert með því að gera ákvarðanir Seðlabankans að forsendu kjarasamninga. Þvert á móti er með því vegið að sjálfstæði bankans.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×