Innlent

Nauðgunardómur mildaður um hálft ár

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Húsakynni Landsréttar.
Húsakynni Landsréttar. Vísir/Hanna

Landsréttur staðfesti í dag sakfellingu Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Þórði Juhasz og dæmdi hann til þriggja og hálfs árs fangelsis fyrir að nauðga fjórtán ára stúlku. Hérðasdómur hafði dæmt Þórð til fjögurra ára fangelsis og stytti Landsréttur því dóminn yfir honum um hálft ár.

Þórður, sem framdi brotið árið 2016, er sagður hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs- og þroskamunar auk þess sem hún var ein með honum í bíl, fjarri öðrum. Þá var því einnig lýst í dómi héraðsdóms að Þórður hafi beitt afli til þess að stúlkan héldi áfram þegar hún reyndi að hætta. Nánar má lesa um brot Þórðar í fyrri frétt Vísis.

Sjá einnig: Fjögurra ára fangelsi fyrir að nauðga 14 ára stúlku

Í dómsniðurstöðum Landsréttar segir að brot Þórðar sé alvarlegt og minnt á að það hafi beinst gegn 14 ára barni. Þórður eigi sér þar að auki engar málsbætur. Því hafi verið talið rétt að staðfesta hinn áfrýjaða dóm „um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsiákvæða.“ Þar að auki skal Þórður greiða þær 1,6 milljónir króna sem kveðið var á um í dómi héraðsdóms, auk alls áfrýjunarkostnaðar.

Hins vegar er ekki vikið að því orði í dómnum hvers vegna Landsréttur taldi rétt að milda fangelsisdóminn yfir Þórði um hálft ár - úr fjórum árum í þrjú og hálft sem fyrr segir.

Ef bornir eru saman dómar héraðsdóms og Landréttar má sjá að síðarnefndi dómurinn telur ekki tilefni til að hafa hliðsjón af 3. tölulið 70. greinar almennra hegningarlaga, sem er svo hljóðandi: „Hversu mikil hætta var búin af verkinu, einkum þegar til þess er litið, hvenær, hvar og hvernig það var framkvæmt.“

Ætla má að Landsréttur hafi því ekki talið þennan lið eiga við brot Þórðar, ólíkt Héraðsdómi Reykjavíkur. 

Dóm Landsréttar má nálgast hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.