Innlent

Lægð væntanleg um miðja viku en „vorstemning“ eftir helgi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Búast er við stífri austanátt með talsverðri rigningu um miðja viku.
Búast er við stífri austanátt með talsverðri rigningu um miðja viku. Vísir/vilhelm
Lítil breyting verður á veðrinu næstu daga, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Áfram má búast við austlægri átt og bjartviðri vestan- og norðanlands en þungbúnara veðri suðaustanlands, skýjað og stöku skúrir eða él.

„Dægursveiflan er talsverð, þar sem hiti nær allt að 9 stigum yfir hádaginn en fer víða niður fyrir frostmark að næturlagi einkum þar sem er léttskýjað og hægur vindur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Í dag er svo svokallaður grár dagur á höfuðborgarsvæðinu. Vindur er hægur, götur þurrar og litlar líkur á úrkomu og er því búist við svifryksmengun yfir heilsufarsmörkum við stórar umferðaræðar. Því býður Strætó borgarbúum upp á frían dagspassa í Strætóappinu í dag og er fólk hvatt til að skilja einkabílinn eftir heima.

Þá mun „fyrirstöðuhæðin“ sem liggur norðaustur af landinu gefa eftir um miðja vikuna. Fyrir vikið verður komin stíf austanátt með talsverðri rigningu í lok vikunnar. Þá er einnig útlit fyrir vætusama helgi.

Þegar rýnt er í næstu viku, dymbilviku, eru svo vísbendingar um að hæðarsvæði nái aftur yfirhöndinni kringum landið „með tilheyrandi vorstemningu“.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag og miðvikudag:

Austan og suðaustan 3-8 m/s, en 10-15 með suðurströndinni. Léttskýjað á N- og V-landi, annars skýjað og stöku skúrir eða él SA-lands. Hiti 2 til 9 stig, en víða næturfrost, einkum á N-verðu landinu. 

Á fimmtudag:

Suðaustan 5-13, hvassast við SV-ströndina. Skýjað og rigning SA-til, en bjartviðri N-lands. Hiti 4 til 10 stig að deginum. 

Á föstudag:

Gengur í suðaustan 10-18, hvassast SV-lands. Rigning eða súld, en úrkomulítið NA-til. Milt veður. 

Á laugardag:

Suðlæg átt, kaldi eða strekkingur og skúrir eða rigning, en úrkomulítið NA-til. Hiti 5 til 13 stig, hlýjast NA-lands. 

Á sunnudag (pálmasunnudagur):

Suðvestlæg átt með skúrum en léttir til fyrir austan. Kólnandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×