Innlent

Guðni og Kristján Þór funda með Pútín

Atli Ísleifsson skrifar
Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson.
Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson. vísir/vilhelm
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, munu funda með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Pétursborg þann 10. apríl næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta. Guðni og Kristján Þór munu sækja ráðstefnu um málefni norðurslóða, International Arctic Forum, í Pétursborg dagana 9. og 10. apríl.

„Á ráðstefnunni mun forseti m.a. taka þátt í pallborðsumræðum síðdegis þriðjudaginn 9. apríl ásamt Vladímír Pútín forseta Rússlands, Sauli Niinistö forseta Finnlands, Ernu Solberg forsætisráðherra Noregs og Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. Málstofan ber yfirskriftina Norðurslóðir – hafsjór tækifæra (The Arctic: An Ocean of Opportunity).

Þá mun forseti einnig eiga fund með Vladímír Pútín, forseta Rússlands, miðvikudaginn 10. apríl. Fundinn situr einnig Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Forseti heimsækir Ríkisháskólann í Pétursborg að morgni miðvikudagsins 10. apríl. Hann mun eiga fund með rektor og flytja síðan opinberan fyrirlestur sem ber heitið “We all protest!” Diversity, critique and freedom as the essence of historical research. Við háskólann er m.a. öflug norrænudeild sem stofnuð var að frumkvæði Míkhaíls Ívanovítsj Steblín-Kamenskíj árið 1958 en hann var mikilvirkur fræðimaður og þýðandi á vettvangi íslenskra fornbókmennta. Þá mun forseti einnig hitta að máli forystufólk á sviði viðskipta milli Rússlands og Íslands,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×