Innlent

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála Þingvallanefnd í óhag

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála dæmdi Ólínu í hag eftir að hún hlaut ekki starf sem þjóðgarðsvörður.
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála dæmdi Ólínu í hag eftir að hún hlaut ekki starf sem þjóðgarðsvörður. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Úrskurður barst í dag frá kærunefnd jafnréttismála um ráðningu Þingvallanefndar í stöðu þjóðgarðsvarðar. Niðurstaðan var sú að jafnréttislög hafi verið brotin þegar Einar Á. E. Sæmundssen var skipaður í starfið fram yfir Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur.

Ekki náðist samband við Ólínu en hún tjáði sig stuttlega um málið í fésbókarfærslu í kvöld.

„Eftir ráðningu í starf þjóðgarðsvarðar s.l. haust sneri ég mér til úrskurðarnefndar jafnréttismála sem hefur nú komist að niðurstöðu. Raunar hefur mér sjálfri ekki borist úrskurðurinn, en þar sem fréttin er orðin opinber sé ég ekki ástæðu til að þegja yfir málinu. Það gleður mig að úrskurðarnefndin tekur undir sjónarmið mín í málinu. Nú hugsa ég minn gang.“

Ari Trausti Guðmundsson formaður nefndarinnar hefur enn ekki tjáð sig um úrskurðinn en sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að málið yrði rætt á reglulegum fundi nefndarinnar á morgun.

Staða þjóðgarðsvarðar var auglýst í ágúst og komu helst tveir til greina í ráðningu hennar, þau Ólína og Einar,  en voru þau bæði boðuð í viðtal. Nefndin kaus um ráðninguna og hlaut Einar fjögur atkvæði á móti þremur sem féllu Ólínu í vil.

Ólína tjáði sig um málið í fésbókarfærslu í haust þar sem hún sagði nefndina hafa gengið fram hjá umsókn hennar, þrátt fyrir að hún væri með meiri menntun, meiri og víðtækari stjórnunarreynslu en sá sem var ráðinn.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.