Innlent

„Þetta er viðkvæm staða, gríðarlega viðkvæm“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vilhjálmur Birgisson sést hér fremstur á mynd í húsakynnum ríkissáttasemjara.
Vilhjálmur Birgisson sést hér fremstur á mynd í húsakynnum ríkissáttasemjara. Vísir/vilhelm
Fundi stéttarfélaganna Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness (VLFA), Verkalýðsfélags Grindavíkur (VLFG), Framsýnar, Landssambands íslenskra verslunaramanna (LÍV) og Samtaka atvinnulífsins (SA) lauk um sexleytið í dag. Formaður VLFA segist bjartsýnn á framhaldið en segir stöðuna þó viðkvæma. Aftur verður fundað í húsakynnum ríkissáttasemjara í fyrramálið.

„Við erum að tala saman og á meðan við erum að tala saman þá eru hlutirnir betri en þegar við töluðum ekki saman,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, í samtali við Vísi, inntur eftir því hvernig fundurinn í dag hafi gengið. Hann vill þó ekki greina frá því sem rætt var á fundinum.

Fundur félaganna og SA hófst klukkan tíu í morgun og lauk eins og áður sagði um klukkan 18, en fyrst stóð til að fundi yrði slitið klukkan 17. Vilhjálmur segir að áfram verði fundað á morgun, fyrst hefjast vinnufundir félaganna í fyrramálið og um hádegisbil verður sest niður með SA hjá ríkissáttasemjara.

Ertu bjartsýnn á framhaldið?

„Ég ætla að leyfa mér, á meðan við erum að tala saman og að leita leiða, þá ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýnn. Þetta er viðkvæm staða, gríðarlega viðkvæm.“

Ef fundir stéttarfélaganna sex og SA skila ekki árangri verður blásið til verkfalla á þriðjudag. Boðuðum verkföllum Eflingar og VR, sem hefjast áttu á fimmtudag og standa yfir í tvo sólarhringa, var frestað í byrjun vikunnar og þá tilkynnt að gerð yrði atlaga að samkomulagi nú um helgina.


Tengdar fréttir

Telur það skýrast um helgina hvort aðilar séu að ná saman

Formaður VR segir að það þurfi ekki lengri tíma en helgina til að komast að niðurstöðu um hvort aðilar séu að landa kjarasamningi eða ekki. Mál gætu jafnvel farið að skýrast í dag en að óbreyttu hefjast næstu verkföll á þriðjuddag. Fundur SA og SGS í gær var tíðindalaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×