Innlent

Samningsaðilar ræða launaliðinn mjög stíft

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að steytt hafi á umræðunni um launaliðinn í kjaraviðræðum sex stéttarfélaga við Samtök atvinnulífsins en deiluaðilar hafa fundað stíft í dag. Umræða um vinnutímabreytingar sé nokkurn veginn úr vegi.

Fundur stóð enn yfir hjá Eflingu, VR og fjögurra annarra stéttarfélaga með Samtökum atvinnulífsins og Ríkissáttasemjara á sjöunda tímanum en hann hófst í hádeginu.

„Það er búið að vinna stíft og báðir aðilar eru að vinna greiningarvinnu út af fyrir sig og þess á milli er verið að funda og það er samtal í gangi,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.

Það hafi steytt á umræðunni um launaliðinn. „Það hefur líka steytt á umræðu um vinnutímabreytingar. Nú, annar af þessum ásteytingarsteinum sýnist mér að sé nokkurn veginn úr vegi en það er verið að ræða launaliðinn mjög stíft,“ segir Viðar.

Að óbreyttu hefjast svokölluð háannatímaverkföll hjá bílstjórum almenningsvagna Kynnisferða í fyrramálið en þau munu hafa töluverð áhrif á tíu strætóleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Bílstjórar leggja niður störf frá klukkan sjö til níu í fyrramálið og aftur frá klukkan fjögur til sex síðdegis.

„Það [verkfallið] mun fara fram og ekkert sem bendir til annars. Okkar áætlun um sólarhringsverkföll á miðvikudag, fimmtudag og föstudag, hún stendur enn og við biðjum okkar félagsmenn að vera í startholum að framfylgja þeirri aðgerð en að sjálfsögðu er aldrei að vita hvað getur gerst í viðræðunum.“

Hann býst við því að fundað verði fram á kvöld. „Ég er allavega ekki að fara heim í kvöldmat.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×