Innlent

Formaður LÍV segir af sér í kjölfar „verulegs meiningarmunar“ milli hans og VR

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Guðbrandur Einarsson, formaður LÍV, sést hér ásamt Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR.
Guðbrandur Einarsson, formaður LÍV, sést hér ásamt Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR. Mynd/VR
Guðbrandur Einarsson formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna hefur sagt af sér sem formaður sambandsins. Í tilkynningu segir að afsögnina megi rekja til „verulegs meiningarmunar“ á milli hans og forsvarsmanna VR varðandi kjarasamningsgerð en félögin sameinast þann 1. apríl næstkomandi.

Guðbrandur hefur gegnt stöðu formanns LÍV í nær sex ár. Haft er eftir honum í tilkynningu að reynslan hafi gefið honum margt og veitt honum ný tækifæri. Hins vegar muni samningsumboð LÍV í kjaraviðræðum færast yfir til VR við sameiningu félaganna en þar hefur komið upp ágreiningur.

„Þá er sú staða uppi að LÍV og VR hafa ekki átt samleið við gerð kjarasamnings, þrátt fyrir að hafa lagt fram sameiginlega kröfugerð. Verulegur meiningarmunur er á milli mín og forsvarsmanna VR með hvaða hætti skuli nálgast kjarasamningsgerð og þar sem ég hef ákveðið að þiggja ekki starf hjá VR, þrátt fyrir boð þar um, tel ég eðlilegt að ég stígi úr stóli formanns Landssambands íslenskra verslunarmanna á þessum tímapunkti,“ segir í tilkynningu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×