Innlent

Meint harð­ræði við mót­mælendur til nefndar um eftir­lit með lög­reglu

Nadine Guðrún Yaghi og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, á fundinum í morgun.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, á fundinum í morgun. vísir/vilhelm
Aðgerðir lögreglu vegna mótmæla á Austurvelli undanfarna daga eru komnar inn á borð nefndar um eftirlit með lögreglu. Mótmælin hófust í síðustu viku en tilefni þeirra eru aðstæður hælisleitenda hér á landi.

Til stimpinga kom á Austurvelli þann 11. mars vegna tilraunar mótmælenda til að tjalda og vildu margir meina að lögreglan hefði gengið of hart fram gagnvart mótmælendum. Piparúða var meðal annars beitt en það er í fyrsta skipti síðan slíkt er gert frá árinu 2009.

Í viðtali við Vísi daginn eftir tók aðalvarðstjóri lögreglu ekki undir það að lögreglan hafi beitt harðræði og sagði hann þjóðerni mótmælenda engu skipta.

 

Opinn fundur allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um aðgerðir lögreglu hófst klukkan 8:30 í morgun.

Á meðal þeirra sem komu fyrir nefndina voru þau Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Fram kom í máli Sigríðar Bjarkar að aðgerðir lögreglu væru komnar til nefndar sem hefur eftirlit með störfum lögreglunnar. Málið yrði yfirfarið af óháðum aðilum en fullt af myndefni er til frá Austurvelli, ekki síst frá 11. mars.

Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefur mánuð til að greina erindið og senda það áfram til meðferðar hjá réttu embætti. Það embætti sem fær málið til meðferðar hefur síðan þrjá mánuði til að bregðast við.

Þegar embættið hefur síðan brugðist við kvörtuninni eða eftir atvikum kæru, þá ef mál fer til saksóknara, ber að upplýsa nefndina um niðurstöðuna.

Nefndin fær þá málið aftur til sín og fer yfir það. Hún getur þá, ef tilefni er til, komið að óbindandi tilmælum eða ábendingum um það sem betur má fara. Þannig er minnsti málsmeðferðartími fjórir mánuðir.  

Á fundinum kom fram að nefndin myndi geta staðið við að greina málið og senda það áfram innan mánaðar.

Uppfært klukkan 11:38: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar kom fram að nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefði fjóra mánuði til að greina málið. Það er ekki rétt og hefur verið leiðrétt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×