Innlent

Ritstjóri Kjarnans hlaut blaðamannaverðlaunin fyrir Kaupthinking

Kjartan Kjartansson skrifar
Verðlaunahafar frá vinstri: Ragnheiður Linnet, Þórður Snær Júlíusson, Aðalheiður Ámundadóttir og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir sem tók við verðlaunum fyrir hönd blaðmanna Stundarinnar.
Verðlaunahafar frá vinstri: Ragnheiður Linnet, Þórður Snær Júlíusson, Aðalheiður Ámundadóttir og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir sem tók við verðlaunum fyrir hönd blaðmanna Stundarinnar. Vísir/Þórir
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hlaut blaðamannaverðlaun ársins fyrir bók sína „Kaupthinking“ þegar þau voru afhent í dag. Blaðamenn Stundarinnar fengu verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins vegna umfjöllunar sinnar um jarðnæði í eigu innlendra og erlendra auðmanna.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að umfjöllun Þórðar Snæs í bókinni dragi upp skýra mynd af ósæmilegu háttalagi lykilbankamanna sem leiddu Kaupþing frá einkavæðingu að falli árið 2008. Umfjöllunin sé afrakstur áralangrar rannsóknar Þórðar Snæs á bankanum og víðtækrar heimildarvinnu úr bæði opinberum og óopinberum gögnum. Vinna hans eigi sér fáar hliðstæður.

Þeir Freyr Rögnvaldsson og Steindór Grétar Jónsson, blaðamenn Stundarinnar, fengu verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins fyrir umfjöllunina „Landið sem auðmenn eiga“.

Ragnheiður Linnet hlaut verðlaun fyrir viðtal ársins sem hún tók við Merhawit Baryamikael Tesfaslase, ekkju plastbarkaþegans Andermariam Beyene. Hann var fyrsti maðurinn sem gervibarki var græddur í árið 2011 en hann lést þremur árum síðar. Viðtalið birtist í tímaritinu Mannlífi.

Verðlaun fyrir umfjöllun ársins féllu í skaut Aðalheiðar Ámundadóttur, blaðamann Fréttablaðsins, vegna frétta hennar og fréttaskýringa um forsögu, endurupptöku og eftirmála Guðmundar- og Geirfinnsmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×