Innlent

Signý er silkibóndi og ræktar silkiorma

Kristján Már Unnarsson skrifar
Signý Gunnarsdóttir, silkibóndi í Grundarfirði, með silkiormaegg. Silkiþræðir á borðinu.
Signý Gunnarsdóttir, silkibóndi í Grundarfirði, með silkiormaegg. Silkiþræðir á borðinu. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Hún kallar sig silkibónda, býr á Snæfellsnesi, og er eftir því sem best er vitað fyrsti Íslendingurinn sem ræktar silki hérlendis. Það er þó ekki silkiþráður sem hún sækist eftir með því að ala silkiorma, eins og sjá mátti í fréttum Stöðvar 2. 

Nýjustu búgreinina í flóru íslensks landbúnaðar finnum við í Grundarfirði, og vafalaust myndi margan klígja bara við tilhugsunina að umgangast svona iðandi ormamergð.

Silkilirfur í eldi í Grundarfirði. Mynd/Signý Gunnarsdóttir.

En þetta eru engir venjulegir ormar. Þetta eru silkiormar, sem Signý Gunnarsdóttir elur, en í gegnum nám sitt í fatahönnun við Listaháskóla Íslands fékk hún þá hugdettu að rækta silki. 

„Hör var ræktaður á Íslandi lengi vel. Hampur, það er hægt að rækta hann á Íslandi, en það er ekki gert. Við flytjum náttúrulega allt inn,“ segir Signý.

Silkifiðrildi á Snæfellsnesi. Mynd/Signý Gunnarsdóttir.

„Og mér finnst bara sniðugt að við reynum að búa til einhver hráefni hér á Íslandi.“

-Og hérna ertu með íslenskt silki. 

„Já, þetta er alvöru silki, náttúrulega.“

Hún fékk leyfi til að flytja inn egg, þau ganga síðan í gegnum lífsstigin fjögur á nokkrum vikum, breytast í lirfu, púpu og loks fiðrildi. En er einhver glóra í því að gera þetta á Íslandi? 

„Já, út af því að ég er ekki bara að rækta silki og silkiorma bara útaf þræðinum og til þess að nota hann í textíl. Ég er að hugsa þetta út frá nýsköpun,“ svarar hún. 

Silkormarnir gefa nefnilega líka af sér verðmæt prótein og þeim er Signý að sækjast eftir; sericin og fibroin.

Silkiormarnir gefa ekki aðeins af sér silki heldur einnig verðmæt prótein. Mynd/Signý Gunnarsdóttir.

„Fibroin-einingin er notuð í líftækni og sericin-próteinið er hægt að nota í húðvörur, lyfjagerð. Þannig að það er svona vinkillinn sem ég er að horfa til með þessari silkiframleiðslu. 

Þannig að ég er ekki á leiðinni í samkeppni við Kína með að framleiða venjulegt hvítt silki,“ segir Signý. 

Nánar er rætt við silkibóndann í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2, sem fjallar um mannlíf í Grundarfirði. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.