Innlent

Baldvin harmar framgöngu sína á göngum þingsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Már Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Baldvin Þorsteinsson.
Már Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Baldvin Þorsteinsson. Vísir/Arnar
Baldvin Þorsteinsson segist hafa komist óheppilega að orði við Má Guðmundsson, seðlabankastjóra, að loknum opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á Alþingi í morgun. Már kom fyrir nefndina í morgun þar sem Samherjamálið svokallaða og vinnubrögð Seðlabankans í málinu voru til umfjöllunar.

Að loknum fundinum, frammi á gangi á nefndasviði Alþingis, beindi Baldvin orðum sínum að Má þegar seðlabankastjóri ætlaði að fara að ræða við Þorstein Má.

„Hafðu smá sómatilfinningu og drullaðu þér í burtu,“ sagði Baldvin við Má að loknum fundinum.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, þurfti að ganga á milli manna og sagði að svona ætti fólk ekki að haga sér á göngum Alþingis.

Sjá einnig: Sonur Þorsteins Más lét seðlabankastjóra heyra það



Í skilaboðum til starfsmanna Samherja sem birt hafa verið á vef fyrirtækisins segir Baldvin að orðaval hans hafi ekki verið sæmandi og hann hefði gjarnan kosið að hafa valið kurteisislegri orð.



Baldvin segir að í um sjö ár hafi Samherji setið undir ásökunum Seðlabankans sem engin stoð sé fyrir og það hafi tekið á.

„Þegar við héldum að loks væri runnin upp sú stund að afsökunarbeiðni kæmi frá seðlabankanum var enn haldið áfram að réttlæta aðfarirnar. Við þær aðstæður fannst mér óviðeigandi að seðlabankastjóri nálgaðist föður minn kumpánlega og bað ég bankastjórann um að láta það ógert,“ skrifar Baldvin.

Hann segir orðalagið hafi gengið of langt og segist þykja það leitt.


Tengdar fréttir

Sonur Þorsteins Más lét seðlabankastjóra heyra það

Baldvin Þorsteinsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja og sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra fyrirtækisins, lét Má Guðmundsson, seðlabankastjóra, heyra það að loknum opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á Alþingi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×