Innlent

Bein áhrif á 2700 farþega

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson að loknum ráðherrafundi í morgun.
Sigurður Ingi Jóhannsson að loknum ráðherrafundi í morgun.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, áætlar að fall WOW air hafi bein áhrif á um 2700 farþega. Búið er að virkja viðbragðsáætlun stjórnvalda vegna stöðunnar sem upp er komin.

Í samtali við fréttastofu að loknum ráðherrafundi í Stjórnarráðinu sagði Sigurður að viðbragðsáætlun stjórnvalda felist ekki síst í því að fá önnur flugfélög til að aðstoða við flutning á strandaglópum. Þeir séu 4000 í heildina en þar af séu 1300 svokallaðir „transit-farþegar,“ því hafi örlög WOW bein áhrif á 2700 manns sem fyrr segir.

Tilkynning á vef Icelandair um björgunarfargjöldin sem Sigurður vísar til.
Icelandair hafi til að mynda boðið farþegum svokölluð björgunarfargjöld, auk þess sem hluti þeirra sem fastir voru á Keflavíkurflugvelli í morgun hafi fengið að fljúga með vélum félagsins.

Easyjet hafi gert slíkt hið sama og segist Sigurðar búast við að fleiri flugfélög fylgi í kjölfarið.

Þá sé áætlunin einnig fólgin í því að „bæta upplifun“ þeirra sem farþega sem eru fastir, sú vinna sé unnin á vegum ferðamálaráðuneytisins.

Hann fór ekki nánar út í þá sálma í samtali við fréttastofu í morgun.

Sigurður sagði hug ríkisstjórnarinnar ekki síst vera hjá starfsmönnum WOW air sem missa vinnuna - „og hafa unnið nótt sem nýtan dag við að bjarga félaginu,“ það hafi hins vegar verið vonbrigði að það hafi ekki tekist.

Efnahagsstaðan á Íslandi sé hins vegar sterk, þó svo að það sé áskorun fólgin í þeirri stöðu sem upp sé komin „þá munum við takast á við hana,“ segir Sigurður Ingi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×