Innlent

Telur hag­kerfið vel í stakk búið til að takast á við þá á­skorun sem fall WOW air er

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir fall WOW air áskorun fyrir íslenskt efnahagslíf.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir fall WOW air áskorun fyrir íslenskt efnahagslíf. vísir/vilhelm
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að það séu vonbrigði að flugfélagið WOW air hafi hætt starfsemi. Stjórnvöld hafi fylgst með örðugleikum félagsins og að sjálfsögðu bundið vonir við að félagið kæmist í gegnum storminn.

„Fyrst og fremst er auðvitað hugur okkar hjá því starfsfólki sem nú er í þessari erfiðu stöðu, starfsfólki félagsins og því fólki sem hefur byggt afkomu sína á starfsemi félagsins, auðvitað er þetta mikið áfall fyrir þau.“

Katrín segir að fall WOW air sé áskorun fyrir íslenskt efnahagslíf en íslenskt hagkerfi hafi sjaldan verið eins vel í stakk búið til að takast á við slíka áskorun.

„Hér hafa skuldir ríkissjóðs verið lækkaðar með markvissum hætti, aukinn þjóðhagslegur sparnaður, forðum hefur verið safnað og lánakjör ríkisins aldrei betri. Þannig að ég held að við séum að fullvel í stakk búin til að takast á við þessa áskorun og horfa til framtíðar,“ sagði Katrín í samtali við fréttastofu að loknum ráðherrafundi í morgun.

Greint hefur verið frá því að viðbragðsáætlun stjórnvalda vegna WOW air hafi verið virkjuð. Hún felst meðal annars í því að koma þeim farþegum sem nú eru strandaglópar á milli staða.

„Þar eru ákveðnir hlutir sem eru settir í gang, það eru boðin tiltekin björgunarfargjöld til flugfarþega til þess að komast á milli staða. Þannig að það er annars vegar hlutverk stjórnvalda og síðan munum við auðvitað endurmeta okkar áætlanir. Hins vegar gerir sú fjármálaáætlun sem við erum að ræða núna í þinginu ráð fyrir kólnun í hagkerfinu þar sem við erum meðal annars að leggja aukna áherslu á opinberar fjárfestingar til að vega upp á móti þeim slaka sem þetta getur valdið“ sagði Katrín en

Viðtal Heimis Más Péturssonar, fréttamanns, við Katrínu má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×