Innlent

Meint skattsvik meðlima Sigur Rósar alls um 150 milljónir króna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigur Rósar-menn sögðu í yfirlýsingu fyrr í dag að ákæran hryggi þá en þeir vona að málið skýrist fyrir dómi.
Sigur Rósar-menn sögðu í yfirlýsingu fyrr í dag að ákæran hryggi þá en þeir vona að málið skýrist fyrir dómi. vísir/getty

Meint skattsvik fjögurra meðlima Sigur Rósar sem ákærðir hafa verið fyrir skattalagabrot nema alls um 150 milljónum króna þegar vangreiddur tekjuskattur og vangreiddur fjármagnstekjuskattur þeirra allra er talinn saman samkvæmt ákærunum.



Í ákæru á hendur Jóni Þór Birgissyni, söngvara sveitarinnar, kemur fram að hann sé ákærður fyrir að greiða ekki tekjuskatt og útsvar upp á rúmar 30 milljónir króna og svo fyrir vangreiddan fjármagnstekjuskatt upp á rúmar 13 milljónir króna. Ná meint brot hans til tekjuáranna 2010, 2012, 2013 og 2014.



Sjá einnig: Ákæran hryggir Sigur Rósar-menn sem vona að málið skýrist fyrir dómi



Samkvæmt ákæru taldi Jón Þór ekki fram tekjur fyrir rúmar 75 milljónir króna og fyrir vanframtaldar fjármagnstekjur upp á tæpar 68 milljónir króna.



Þá er endurskoðandi Jóns Þórs ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á skattframtölum söngvarans gjaldárin 2014 og 2015 vegna tekjuáranna 2013 og 2014.



Orri Páll Dýrason, fyrrverandi trommari sveitarinnar, er ákærður fyrir vangreiddan tekjuskatt og útsvar upp á rúmar 36 milljónir króna og fjármagnstekjuskatt upp á rúmar 9 milljónir króna.



Vanframtaldar tekjur hans samkvæmt ákæru eru alls tæpar 82 milljónir króna og vanframtaldar fjármagnstekjur rúmar 47 milljónir króna. Meint brot Orra Páls ná yfir tekjuárin 2010 til og með 2013.



Sjá einnig: Meðlimir Sigur Rósar ákærðir fyrir skattsvik



Georg Holm, bassaleikari sveitarinnar, er ákærður fyrir vangreiddan tekjuskatt upp á rúmar 35 milljónir króna og vangreiddan fjármagnstekjuskatt upp á rúmar 9 milljónir.



Vanframtaldar tekjur hans námu tæpum 79 milljónum króna og vanframtaldar fjármagnstekjur rúmum 47 milljónum króna. Meint brot Georgs ná yfir tekjuárin 2010 til og með 2013.



Kjartan Sveinsson, fyrrverandi hljómborðsleikari sveitarinnar, er einnig ákærður fyrir vangreiddan tekjuskatt upp á tæpar 19 milljónir króna en vanframtaldar tekjur hans samkvæmt ákæru eru rúmlega 42 milljónir króna. Meint brot hans ná til tekjuáranna 2012 og 2014.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×