Innlent

Dæmdir menn óska eftir frestun á afplánun í ljósi dómsins í Strassborg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá útivistarsvæðinu í fangelsinu á Hólmsheiði.
Frá útivistarsvæðinu í fangelsinu á Hólmsheiði. Vísir/Vilhelm

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að nokkrar beiðnir hafi borist Fangelsismálastofnun um frestun á afplánun í ljósi dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg í gær. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í gær að skipan dómara í Landsrétt hefði verið ólögmæt. Dómsmálaráðherra gerði fjórar breytingar á vali hæfisnefndar við skipan dómsins sem Alþingi samþykkti.

Niðurstaða Mannréttindadómstólsins hefur þegar haft áhrif á meðferð dómsmála hér á landi. Engir dómar verða kveðnir upp í vikunni og þá hefur þeim málum verið frestað sem eru til meðferðar hjá Landsrétti þar sem einn hinna fjögurra dómara situr í dómarasæti.

Í ljósi dómsins í gær hafa nokkrir einstaklingar sem hlutu dóm í Landsrétti haft samband við Fangelsismálastofnun og óskað eftir frestun á afplánun. Þetta segir Páll í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis fyrir hádegi.

„Við veitum fresti á afplánun við tilteknar aðstæður og það munum við skoða í þeim tilvikum ef beiðnir um slíkt koma fram sem tengjast þessum málum,“ segir Páll.

„Einhverjir eru í afplánun nú þegar og verður að skoða hvert mál fyrir sig en mikilvægt er að benda á að dómarnir eru ekki sjálfkrafa ógildir og við erum einfaldlega að fullnusta tildæmdar fangelsisrefsingar.“

Engar beiðnir hafa borist enn sem komið er um að gert verði hlé á afplánun.

„Komi fram beiðni um hlé á afplánun verður það skoðað og verði farið fram á endurupptöku munum við einnig þurfa að fara yfir hvert mál fyrir sig. Við svona aðstæður er mikilvægt að vanda alla vinnu, að allir haldi ró sinni og að við vinnum í samræmi við íslensk lög. Það ætlum við okkur að gera.“

Ellefu samskonar mál og dæmt var í í Strassborg í gær eru á borði Mannréttindadómstólsins að sögn Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns. Um er að ræða mál þar sem einn dómaranna fjögurra hefur verið í dómarasætinu í Landsrétti.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.