Innlent

Yfir hundrað kjarasamningar losna hjá hinu opinbera í lok mánaðar

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Yfir hundrað kjarasamningar losna í lok mánaðar hjá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, vonar að viðræður muni ganga vel jafnvel þótt mörg mál standi út af borðinu. Ólíklegt sé þó að samið verði áður en niðurstöður liggi fyrir í kjaradeilum á almenna markaðnum.

Ólga er á vinnumarkaði og fjöldi kjarasamninga í lausu lofti. Nú styttist í að samningar hjá opinbera vinnumarkaðnum losni en í lok mánaðar losna 152 samningar. Algengt er að almenni vinnumarkaðurinn semji á undan hinum opinbera en vegna þeirra stöðu sem upp er komin gætu samningar þar einnig dregist.

„Við stefnum á að hefja viðræðurnar og reyna að byggja vel undir grunninn en auðvitað er það þannig að við bíðum og sjáum hver niðurstaðan verður á almenna vinnumarkaðnum áður en við klárum okkar samninga,“ segir Sonja Ýr.  

Verkföll í vændum

Fjögur félög á almenna vinnumarkaðnum undirbúa nú röð verkfallsaðgerða. Starfsgreinasambandið og Iðnaðarmenn sitja enn við samningaborðið í Karphúsinu en öll félög hafa vísað deilu sinni til Ríkissáttasemjara.

Efling og VR hafa samþykkt kosningar um aðgerðir sínar og fyrsta verkfall í vændum á föstudag. Verkalýðsfélag Akraness mun í lok mánaðar hefja atkvæðagreiðslu um allsherjar verkfall sem hefjast á 12. apríl og næstkomandi þriðjudag fundar Verkalýðsfélag Grindavíkur um næstu skref.

Félagsdómur tekur fyrir mál Samtaka atvinnulífsins gegn Eflingu á morgun en SA telur Eflingu hafa staðið ólöglega að málum og krefst þess að verkfallið, næstkomandi föstudag, verði dæmt ólögmætt.

En komi til verkfallaáalmenna vinnumarkaðnum mun hinn opinberi fylgjaáeftir?

„Það er of snemmt að segja til um það. Við höfum ekki látið reyna á samningaviðræðurnar enn þá. En auðvitað ætlum við okkur að ná í gegnum þessum stóru málum og þá munum við fylgja því eftir með þeim úrræðum sem við höfum,“ segir hún.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×