Innlent

Herjólfur í lokaprófunum í Póllandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Um borð í nýja Herjólfi. Sjóprófanir á ferjunni standa nú yfir í Póllandi.
Um borð í nýja Herjólfi. Sjóprófanir á ferjunni standa nú yfir í Póllandi. Mynd/Andrés Sigurðsson
Starfsmenn Vegagerðarinnar fylgjast nú með lokaprófunum á Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi í Póllandi. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að enn liggi þó ekki fyrir dagsetning á afhendingu ferjunnar.

Skipasmíðastöðin Crist S.A. í Gdansk smíðar nýja Herjólf sem er rafknúinn. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að ekki verði ljóst hvenær ferjan verður afhent fyrr en lokasiglingaprófunum lýkur.

Hraðaprófanir fara fram í dag undir vökulum augum starfsmanna Vegagerðarinnar. G. Pétur segir að menn séu ánægðir með skipið eftir því sem hann hefur heyrt og að prófanirnar gangi vel.

„Þetta er gríðarlega mikill búnaður þannig að það þarf að prófa hann allan og að allt virki eins og það á að virka. Yfirleitt kemur eitthvað upp á sem þarf að lagfæra eða stilla,“ segir hann.

Gætu hafið siglingar á núverandi ferju

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. sem tekur við rekstri ferjusiglinganna í lok mánaðar, segist ekki hafa fengið neina tilkynningu um hvenær nýja ferjan verður tilbúin til afhendingar.

Upphaflega stóðu vonir til að hægt væri að hefja siglingar með nýju ferjunni þegar um næstu mánaðamót en skammur tími er nú til stefnu að það náist.

„Við erum svo sem alveg undirbúin undir það ef til þess kemur að við hefjum bara ferjusiglingar á núverandi Herjólfi miðað við þær áætlanir sem við stilltum upp,“ segir Guðbjartur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×