Innlent

Stormur, gul viðvörun og „hressileg“ snjókoma

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Einkum mun snjóa við suðurströndina og á Reykjanesi.
Einkum mun snjóa við suðurströndina og á Reykjanesi. Vísir/vilhelm

Búist er við austanstormi syðst á landinu síðdegis í dag en gular viðvaranir Veðurstofu Íslands eru í gildi á Suður- og Suðausturlandi.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að gert sé ráð fyrir að hvessi með morgninum. Vindurinn nær svo stormstyrk allra syðst á landinu síðdegis og líklegt er að með því fylgi ofankoma.

„Á Reynisfjalli ætti að snjóa en slydda á láglendi og jafnvel sums staðar rigning. Aðalúrkoman og mesti vindurinn eru samt bundin við syðst á landinu og ætti ekki að hafa mikil áhrif annars staðar á landinu þótt alls staðar bæti í vind.“

Höfuðborgin sleppur ekki eftir bjarta daga

Þessi sami bakki gæti síðan komið lengra inná suðvestanvert landið seint í kvöld og nótt með snjókomu.

„Staðbundið getur snjóað allhressilega á meðan aðrir staðir sleppa mun betur. Á þetta einkum við suðurströndina og megnið af Reykjanesinu og líklegt þykir að höfuðborgin sleppi ekki eftir þurra og bjarta daga að undanförnu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Á morgun er búist við mun hægari vindi og suðlægri átt víðast hvar á landinu. Ofankoma verður í flestum landhlutum þó íbúar á Norðvesturlandi gætu sloppið. Víða verður frostlaust við ströndina en annars frost, kaldast inn til landsins norðanlands þar sem frostið gæti farið undir tíu stig að næturlagi.
 

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á laugardag:
Austlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og snjókoma eða él sunnanlands, en þurrt að mestu norðantil. Frost 1 til 10 stig, kaldast í innsveitum NA-lands, en sums staðar frostlaust við ströndina. 

Á sunnudag:
Suðaustlæg átt og él á stöku stað, en þurrt á N- og NV-landi. Hiti breytist lítið. 

Á mánudag:
Vaxandi austlæg átt 8-15 síðdegis. Slydda eða snjókoma víðast hvar, en rigning eða slydda SA-lands. Hiti um og yfir frostmarki syðst, en annars vægt frost. 

Á þriðjudag:
Ákveðin norðaustanátt með snjókomu um A-vert landið, þurrt að mestu SA-til, annars él. Vægt frost inn til landsins, einkum NA-lands, en annars 0 til 5 stiga hiti, mildast við S-ströndina. 

Á miðvikudag:
Suðlæg eða breytileg átt og él á stöku stað. Heldur kólnandi í bili. 

Á fimmtudag:
Útlit fyrir austlæga átt með vætu sunnantil en snjókomu fyrir norðan. Hiti að 5 stigum syðra, en annars vægt frost.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.