Innlent

Fundargerðir kjararáðs fást ekki strax

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Í nóvember 2017 óskaði blaðið eftir afriti af fundargerðum kjararáðs.
Í nóvember 2017 óskaði blaðið eftir afriti af fundargerðum kjararáðs. Fréttablaðið/Ernir

Fréttablaðið fær ekki afrit af fundargerðum og tilteknum bréfum hins sáluga kjararáðs fyrr en í fyrsta lagi um miðjan mars. Fimmtán mánuðir eru síðan upphafleg beiðni um gögnin var lögð fram af hálfu Fréttablaðsins.

Í nóvember 2017 óskaði blaðið eftir afriti af fundargerðum kjararáðs. Eftir synjun kjararáðs við beiðninni, þar sem hún þótti of víðtæk, var ný og afmarkaðri beiðni lögð fram. Þeirri beiðni var synjað af ráðinu þar sem það taldi sig lögbundinn gerðardóm en ekki stjórnvald. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál (ÚNU) felldi þá ákvörðun úr gildi og vísaði því aftur til kjara­ráðs til lögmætrar afgreiðslu.

Skömmu síðar var kjararáð lagt niður. Beiðnin var þá, í júlí 2018, send fjármála- og efnahagsráðuneytinu (FJR) en það vísaði ávallt á Þjóðskjalasafnið (ÞSK). Safnið hafði ekki gögnin og vísaði á FJR. Það sagðist ekki geta tekið ákvörðun um afhendingu þar sem það hefði ekki gögnin í sínum vörslum og það þó starfsmaður þess ynni að frágangi þeirra til afhendingar til ÞSK. Þá ákvörðun felldi ÚNU einnig úr gildi. Aftur var málinu vísað heim til lögmætrar afgreiðslu.

Í janúar var því ný beiðni lögð fram og fékkst svar um að gögnin yrðu til fyrri hluta febrúar. Nýverið fékkst þó það svar að í fundargerðunum kynnu að leynast upplýsingar sem ekki megi afhenda. Verið sé að fara yfir gögnin og því ljúki um miðjan mars.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.