Innlent

Segir ræstingafólk tilbúið í aðgerðir

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Zsófia Sidlovits, ræstitæknir og trúnaðarmaður.
Zsófia Sidlovits, ræstitæknir og trúnaðarmaður. Fréttablaðið/Ernir
„Eins og ég sé stöðuna þurfa atvinnurekendur að finna fyrir þrýstingi, og finna fyrir því að við munum gera allt í okkar valdi til að breyta stöðunni,“ segir Zsófia Sidlovits, ræstitæknir á Hótel Borg og Apóteki hóteli.

Zsófia er ein af um 700 liðsmönnum Eflingar stéttarfélags sem starfa við þrif, hreingerningar og frágang herbergja sem munu að líkindum leggja niður störf tímabundið 8. mars næstkomandi. Atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefst í dag. „Ég vonast innilega til þess að tillagan verði samþykkt,“ segir hún. Zsófia er ungversk og flutti til Íslands fyrir þremur árum. Hún vinnur við ræstingar á tveimur stórum hótelum og er trúnaðarmaður Eflingar á báðum vinnustöðum. Hún segir reynslu sína af því að starfa á Íslandi skelfilega, einmitt vegna þeirra aðstæðna sem hún berst nú fyrir að verði leiðréttar.

„Ég hef verið gagnrýnd af skrifstofustarfsfólki fyrir að taka þátt í Eflingu. Þau eru tengd stjórnendum og virðast ekki vilja sjá hvað er að gerast í samfélaginu,“ segir Zsófia. „Ég held að það sé gjá á milli skrifstofufólksins og okkar.“

Aðspurð hvort samstarfsfólk hennar sé sama sinnis og hún segir Zsófia að svo sé. „Ræstingarfólkið hefur verið reitt í langan tíma. Það hefur ekkert breyst, hvorki aðstæðurnar né tilfinningar fólksins,“ segir hún.




Tengdar fréttir

Segir áherslur félaganna einkennilegar

Ferðamálaráðherra hefur áhyggjur af stöðunni sem upp er komin í deilu fjögurra verkalýðsfélaga við SA. Það skjóti skökku við að aðilar virðist ekki vissir um hvert þrætueplið sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×