Innlent

Telja sig vita hver var í bílnum sem fór í Ölfusá

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Ummerki á vettvangi styðja það að bíll hafi farið í ána.
Ummerki á vettvangi styðja það að bíll hafi farið í ána. Vísir/MHH
Staðfest er að bíll hafi farið í Ölfusá við Selfosskirkju nú í kvöld. Ummerki á vettvangi styðja framburð vitna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan á Suðurlandi sendir frá sér. Þá kemur fram að lögregla viti hver hafi verið á ferð og að unnið sé með aðstandendum að málinu.

Björgunarsveitir, slökkvilið Brunavarna Árnessýslu, sjúkraflutningamenn og lögregla fengu tilkynningu um klukkan tíu í kvöld og var allt tiltækt lið úr allri Árnessýslu sent á vettvang auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar fór austur.

Í fyrstu var óljóst hvað hefði átt sér stað en þegar brak tók að berast upp úr ánni, brak eins og rúðuskafa og stuðarar færðist enn meiri þungi í leitina á svæðinu. Bátar sigldu upp og niður ána og björgunarsveitir gegnum með bökkum. Slökkviliðsmenn nota hitamyndavél við leit meðal annars úr þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þá voru björgunarsveitir sendar frá Reykjavík með meiri búnað.

Aðgerðarstjórn fundaði nú fyrir nokkrum mínútum í björgunarmiðstöðinni á Selfossi þar sem næstu skref voru ákveðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×