Hafnarfjarðarbær mun hækka húsaleigu félagslegs húsnæðis í bæjarfélaginu um 10 prósent frá og með 1. maí næstkomandi. Leigjendur hafa fengið tilkynningu þess efnis.
Leiguverðið hjá bæjarfélaginu verður 1152 krónur á fermetrann í mars og má því ætla að það verði um 1267 krónur á fermetra í maí. Leiguverð fyrir 60 fermetra íbúð mun því hækka um næstum 7000 krónur, fara úr 69.120 krónum í 76.020.
Samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar, Árdís Ármannsdóttir, segir í skriflegu svari til fréttastofu að við fjárhagsáætlunargerð bæjarfélagsins hafi verið talið eðlilegt að ráðast í umrædda hækkun.
Leigufjárhæð í félagslega húsnæðiskerfi sveitarfélagsins hafi dregist verulega aftur úr, sé miðað við húsaleigugreiðslur í félagslegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu að sögn Árdísar.
„Þrátt fyrir þessa hækkun er leiguverði stillt mjög í hóf og sveitarfélagið með lágt leiguverð,“ skrifar Árdís og bætir við að Hafnarfjarðarbær leggi mikla áherslu á fjölgun íbúða í félagslega kerfinu. Þannig geri fyrrnefnd fjárhagsáætlun ráð fyrir „umtalsverðum fjárhæðum,“ til að fjölga félagslegum íbúðum.
