Innlent

Telur algjöran óþarfa að afskrifa vetrarveðrið

Birgir Olgeirsson skrifar
Fallegt veður er í Reykjavík þessa stundina en veturinn mun sækja í sig veðrið á föstudag.
Fallegt veður er í Reykjavík þessa stundina en veturinn mun sækja í sig veðrið á föstudag. Vísir

Einstaklega fallegt veður ríkir þessa stundina í Reykjavík en Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur bendir á að óþarfi sé að afskrifa veturinn því breytinga sé að vænta á föstudaginn.

Sunnanátt er í háloftunum yfir Íslandi og segir Einar hana halda köldu lofti í norðri frá í bili. Breytingar í lofthringrásinni yfir Norður-Atlantshafi munu leiða til umskipta á föstudag.

Þá mun kalda loftið úr norðri sækja að Vestfjörðum og hefðbundnu vetrarveðri árstímans spá um helgina og í næstu viku með ríkjandi vindáttum á milli austurs og norðurs.

Einar fer yfir háloftakort sem fengið er af Brunni Veðurstofu Íslands og sýnir stöðuna í rúmlega fimm kílómetra hæð í morgun.

„1. Fyrirstöðuhæðin yfir Bretlandseyjum gefur sig næstu daga eins og ævinlega á endunum með slíkar hæðir. Það gerir líka „fylgihnötturinn“, lægðin yfir Alsír. Óvenjulegum vetrarhlýindum í V-Evrópu er því að ljúka. Fyrir okkur skiptir mestu sunnanröstin vestan við hæðina. Hún koðnar niður um leið og þar með færiband kröppu lægðanna illskeyttu að undanförnu.
2. Loft hefur borist að með S- og SV-átt langt að. Suður í höfum breytist nú háloftavindáttin og milda Atlantshafsloftið beinist síðar meira til austurs.
3. Á sama tíma léttir af spennu norðurundan og heimskautaloft fær aukna útbreiðslu til suðausturs yfir Grænland og suður með austurströnd þess af Svalbarðaslóðum,“ skrifar Einar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.