Innlent

Þurfti tvo dóma til að fá skilnað eftir áreitni og hótanir

Kjartan Kjartansson skrifar
Dómurinn féll í Landsrétti í gær.
Dómurinn féll í Landsrétti í gær. Vísir/vilhelm
Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem veitti konu lögskilnað frá eiginmanni sem var sakfelldur fyrir ítrekuð brot gegn nálgunarbanni, kynferðislega áreitni, hótanir og ærumeiðingar. Maðurinn áfrýjaði dómnum í héraði.

Forsaga málsins er sú að hjónin slitu samvistum árið 2016 eftir að konan hafði kallað lögreglu til vegna áreitis og hótana mannsins í garð hennar og barns sem bjó hjá þeim. Konan hélt því fram að maðurinn hefði beitt hana líkamlegu og andlegu ofbeldi árum saman.

Manninum var vísað af heimilinu með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og látinn sæta nálgunarbanni í fjórar vikur. Nálgunarbannið var framlengt í fjórgang, í síðasta skiptið í sex mánuði. Maðurinn sat einnig í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Konan krafðist lögskilnaðar í apríl árið 2016 en maðurinn sinnti ekki boðum sýslumanns í viðtöl. Kröfunni var þess vegna vísað frá í ágúst það ár. Í október var maðurinn dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi. Héraðsdómur taldi brot mannsins alvarleg og mörg.

Í kjölfarið krafðist konan lögkskilnaðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í febrúar 2017. Henni var veittur skilnaður með dómi í maí í fyrra. Honum vildi maðurinn ekki una og áfrýjaði til Landsréttar sem staðfesti upphaflega dóminn í gær.

Maðurinn þarf að greiða 460.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti. Konan fékk gjafsókn í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×