Innlent

Forsætisráðherra boðar matvælastefnu sem þegar er í mótun hjá Kristjáni Þór

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Hugmyndir um matvælastefnu, sem forsætisráðherra hyggst ræða á fundi ríkisstjórnar á morgun, eru þegar í mótun í verkefnastjórn sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, setti á fót síðastliðið haust með það að markmiði að drög að matvælastefnu yrðu tilbúin í árslok 2019.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins líta báðir ráðherrar svo á að málið sé á þeirra borði en Katrín Jakobsdóttir mun kynna tillögur sínar um mótun atvinnustefnu í ríkisstjórn á morgun.

Katrín segir fulltrúa fernra samtaka hafa óskað eftir fundi með sér um mótun matvælastefnu; Sam­tök iðnaðar­ins, Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, Sam­tök ferðaþjón­ust­unn­ar og Bænda­sam­tök Íslands.

Athygli vekur að um sömu samtök er að ræða og eiga sæti í verkefnastjórn Kristjáns Þórs, að Samtökum ferðaþjónustunnar undanskildum.

„Mér finnst  frábært hjá atvinnurekendum að stíga fram og segjast vera til í samtal á breiðum grunni,“ segir Katrín. Hún boðaði fleiri ráðherra á fund með samtökunum, ráðherra land­búnaðar og sjáv­ar­út­vegs, ferðamála og iðnaðar og um­hverf­is. „Ég mun svo koma með tillögu til ríkisstjórnar á föstudaginn um hvernig við getum brugðist við þessu erindi,“ segir Katrín og leggur áherslu á að mikilvægt sé að taka þessi mál upp á næsta stig og horfa á þau í breiðara samhengi til dæmis út frá umhverfis- og heilbrigðisþáttum.

Ekki náðist í Kristján Þór við vinnslu fréttarinnar en samkvæmt upplýsingum úr ráðuneyti hans er litið svo á að málið sé enn á hans borði þar sem verkefnastjórn hafi verið skipuð og vinni að stefnunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×