Innlent

Tölva Hauks á leið til Íslands

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Haukur Hilmarsson er talinn hafa fallið í Afrin-héraði í Sýrlandi þar sem hann barðist við hlið Kúrda.
Haukur Hilmarsson er talinn hafa fallið í Afrin-héraði í Sýrlandi þar sem hann barðist við hlið Kúrda. Mynd/Úr safni Nurhaks

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar sem talið er að hafi fallið í átökum í Sýrlandi þar sem hann barðist við hlið Kúrda gegn vígasveitum íslamska ríkisins, segir tölvu Hauks vera komna til Evrópu og gerir ráð fyrir því að tölvan komi hingað til lands á næstunni. Þetta kemur fram á vefsíðu Evu.

Eva þakkar Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi alþingismanni og ráðherra, sérstaklega fyrir hans þátt í að koma tölvunni til Evrópu.

„Fyrir utan fólk sem ég þekki persónulega var einn stjórnmálamaður sem strax hafði beint samband við mig og bauð fram aðstoð. Það var Ögmundur Jónasson,“ skrifar Eva. Hún segist oft hafa verið óánægð með Ögmund og látið hann heyra það en það virðist ekki hafa haft áhrif á hann.

„Hann kom á beinu sambandi milli fjölskyldunnar og talsmanns Kúrda hjá Evrópuþinginu, sem talaði við bæði mig og Hilmar í síma og sendi bréf. Nú í janúar kom Ögmundur svo á fundi með þremur talsmönnum Kúrda og bauð mér m.a.s. heim til sín til að hitta þau. Sá fundur hefur nú skilað þeim árangri að tölvan hans Hauks er komin til Evrópu og við reiknum með að hún komi til Íslands fljótlega. Takk Ögmundur, innilega.“

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar. Vísir/Vilhelm

Eva segist þá vona að hægt verði að endurheimta gögn úr tölvunni en segist þó hóflega bjartsýn á að það sé mögulegt. 

„Kannski er þar eitthvað að finna sem varpar frekara ljósi á það sem Haukur var að hugsa og gera í Sýrlandi og þetta ár sem hann var að undirbúa för sína þangað.“

Eva segist óviss um hvort maður jafni sig nokkurn tíma á ástvinamissi og hvort hann hætti að vera sár. Hún segist ekki finna til neinnar löngunar nema þá til að skoða tölvu Hauks.

„Finna kannski dagbókarfærslur, kannski skrýtnar hugrenningar eða einhver þessara kvæða sem ég kann ekki nema að hluta. Ég reikna ekki með fleiri orðaskiptum eða fleiri faðmlögum en mögulega eigum við eftir að sjá eitthvað um það hvernig skoðanir hans og hugmyndir breyttust síðasta árið. Kannski, en bara kannski, leynist þar einhver fjársjóður. Kannski ein lítil frásögn. Kannski eitt ljóð enn.“


Tengdar fréttir

Lögregla rannsakar mál Hauks Hilmarssonar sem mannshvarf

Utanríkisþjónustan mun áfram eiga regluleg samskipti við fulltrúa tyrkneskra stjórnvalda vegna hvarfs Hauks Hilmarssonar í Sýrlandi þótt borgaraþjónustuþætti málsins sé lokið, að sögn utanríkisráðherra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.