Innlent

Lögregla rannsakar mál Hauks Hilmarssonar sem mannshvarf

Heimir Már Pétursson skrifar

Utanríkisþjónustan mun áfram eiga regluleg samskipti við fulltrúa tyrkneskra stjórnvalda vegna hvarfs Hauks Hilmarssonar í Sýrlandi þótt borgaraþjónustuþætti málsins sé lokið, að sögn utanríkisráðherra. Lögreglan rannsaki mál hans sem mannshvarf.

Margrét Tryggvadóttir varaþingmaður Samfylkingarinnar spurði utanríkisráðherra út í það á Alþingi í dag hvað hann og ráðuneyti hans hefðu gert til að komast að því hvað varð um Hauk Hilmarsson, sem talið væri að hafi fallið í átökum á yfirráðasvæði Tyrkja í Sýrlandi hinn 24. febrúar.

„Samkvæmt alþjóðalögum ber Tyrkjum að veita upplýsingar um afdrif þeirra sem þeir fella í stríðsátökum sem þessum. Íslenska ríkið sem og aðstandendur Hauks eiga rétt á að vita hvað hefur orðið um Hauk,“ sagði Margrét.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði stjórnvöld hafa leitað aðstoðar helstu vinaþjóða í þessu máli og leitað upplýsinga hjá Tyrkjum.

„Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað óskað upplýsinga um málið frá tyrkneskum stjórnvöldum og fengið staðfest eftir mörgum leiðum að þarlend stjórnvöld telji Hauk af. Fjölskylda hans hefur verið upplýst um það eins og öll önnur skref sem tekin hafa verið í leitinni að Hauki. Við teljum borgaraþjónustuþætti málsins lokið í bili en lögreglan rannsakar málið sem mannshvarf. Utanríkisþjónustan mun áfram eiga reglulega samskipti við fulltrúa tyrkneskra yfirvalda í tengslum við þetta mál,“ sagði Guðlaugur Þór.

Margrét sagði óásættanlegt að það væri ekki hægt að komast að hinu sanna í málinu.

„Telur ráðherrann að hann persónulega hafi gert allt sem í hans valdi stendur til að finna Hauk eða lík hans ef hann er sannarlega látinn og tryggja að það verði flutt heim,“ spurði Margrét.

„Ég hef gert allt sem í mínu valdi stendur til að hjálpa til í þessu máli. Og ef það er eitthvað sem við getum gert til að hjálpa frekar til við þetta erfiða mál þá munum við auðvitað gera það,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.